Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ekki nægt eftirlit með veiðibúnaði

17.06.2019 - 19:49
Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV
Það skortir á eftirlit með búnaði laxveiðimanna sem koma hingað til lands, segir framkvæmdastjóri veiðifélags. Ekki sé nóg gert til að koma í veg fyrir að hingað til lands berist sjúkdómar sem hrjá villta laxastofna erlendis.

Veiði er víða hafin í laxveiðiám landsins. Veiðifélagið Hreggnasi leigir sjö ár og selur veiðileyfi í þær. Þeirra á meðal er Laxá í Kjós. Talsvert er um það að ferðamenn sem heimsækja landið vilji renna fyrir lax. Jón Þór Júlíusson, framkvæmdastjóri Hreggnasa, hefur áhyggjur af erlendum laxveiðimönnum. 

„Það eru svona  þessir sjúkdómar sem eru að berast milli landa. Sums staðar í stangveiðiheiminum er bannað að fara á svokölluðum feltskóm milli landa. Þetta er hinn týpíski veiðiskór getum við sagt. Sjúkdómahættan liggur í feltsólanum sem safnar í sig botndýralífi viðkomandi svæðis. Við höfum bara verið svo lánssöm á Íslandi hingað til að vera laus við þetta en mér þykir skorta á almenninlegt eftirlit í Leifsstöð því það fara allt of margir framhjá án þess að vera sótthreinsaðir eins og lög og reglur gera ráð fyrir,“ segir Jón.

Hvers vegna er feltsólinn svona varasamur?

„Hann er kannski varasamari en annar veiðibúnaður vegna þess að hann dregur í sig vatn. Þú gengur á þessu á botninum á viðkomandi svæði. Þeir sjúkdómar sem eru eru oft í botndýralífi og gróðri,“ segir Jón.

Jón Þór segir að þeir sem veiða á vegum Hreggnasa fái lánaða skó.

„En það er ekkert víst að það sé gert alls staðar. Menn eru að koma á eigin vegum og fara að veiða á hálendi landsins  og annað slíkt,“ segir Jón.

En eru þetta ekkert óþarfa áhyggjur, er mikið um sjúkdóma?

„Það er það víða. Það eru nýleg dæmi núna frá Noregi um að það sé komin upp veiki í villtum laxastofnum hvort sem það er rakið til sjókvíaeldis vita menn held ég ekki alveg á þessu stigi. En ég held að það sé engin ástæða til að taka áhættu,“ segir Jón.

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV