Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ekki markmið að fá hingað enn fleiri ferðamenn

16.03.2017 - 22:28
Mynd með færslu
 Mynd: Sjálfstæðisflokkurinn
Ísland á ekki að hafa það að markmiði að fjölga ferðamönnum frekar, heldur verja núverandi stöðu, segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra. Samtök ferðaþjónustunnar vilja að byrjað verði að stýra flæði ferðamanna til landsins.

Ferðamönnum sem komu til Íslands fjölgaði um 39% milli ára í fyrra, og voru tæplega 1,8 milljónir. Arion banki spáir því að á þessu ári fjölgi þeim um 25%, en Íslandsbanki spáir enn meiri fjölgun, 30%. Ef það gengur eftir koma 2,3 milljónir ferðamanna til landsins í ár, með enn meira álagi á flugvelli, vegi, gististaði og náttúru landsins.

Ef spá Íslandsbanka gengur eftir verða tekjur af ferðaþjónustu á þessu ári næstum helmingur af gjaldeyristekjum Íslands, og miklu meiri en af sjávarútvegi og álframleiðslu til samans. Framtíð ferðaþjónustunnar var rædd á Ferðaþjónustudeginum í Hörpu í dag.

Grímur Sæmundsen, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, kveðst bjartsýnn á að sumarið gangi vel.

„Ég tel að við munum ráða við þennan fjölda sem er væntanlegur til okkar, en ég lýsti áhyggjum af því í minni ræðu að þetta gengur ekki með óheftum hætti áfram svona. Við verðum að fara að horfa til þess að stýra flæði ferðamanna til landsins, um landið og að okkar stærstu ferðamannaperlum með miklu markvissari hætti en við höfum gert áður. Ég held að það sé lykilatriði, lykilhugtak í þessu samhengi er aðgangsstýring.“

Þórdís Kolbrún segir ekki markmið í sjálfu sér að fjölga ferðamönnum enn frekar.

„Þeim hefur fjölgað mjög hratt og mikið á skömmum tíma, og mér finnst verkefnið núna miklu frekar vera að verja þá stöðu sem við erum í.“

Hún segir að byggja þurfi upp innviði, hvort sem það séu göngustígar eða annað, en líka þurfi að byggja upp greinina sjálfa.

„Þar er fjöldi ferðamanna ekki aðalmarkmiðið, heldur að við séum með hæfni og gæði og meiri verðmætasköpun í greininni.“

 

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV