Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ekki lengur hægt að fela fé í ákveðnum ríkjum

04.01.2016 - 12:37
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Frá og með áramótum fá íslensk skattayfirvöld allar upplýsingar um bankainnistæður í öðrum löndum. Ríkisskattstjóri segir að nú geti menn ekki leynst með peninga í öðrum löndum. Hann segir markmiðið að stöðva skattsvik. Nýjar reglur tóku gildi á Íslandi um áramótin þegar samræmdur staðall um skipti á fjárhagsupplýsingum var innleiddur. Ísland er eitt 52 ríkja innan OECD sem hefur innleitt staðalinn.

Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri segir að hér eftir skiptist ríki OECD á upplýsingum um bankareikninga.

„Þetta hefur í för með sér að íslensk skattayfirvöld fá upplýsingar um erlendar bankainnistæður niður á nöfn og þetta fer inn á framtöl eða verður tekið síðar,“ segir Skúli Eggert. Hann segir að allar upplýsingar um bankainnistæður í útlöndum verði aðgengilegar skattayfirvöldum. Markmiðið sé að stöðva glæpastarfsemi, skattundanskot og skattsvik.

„Þetta er samræmd aðgerð allra ríkja sem hafa það að markmiði að koma í veg fyrir að það sé leynd í kringum fjárhagsupplýsingar á milli landa,“ segir Skúli Eggert.

Breytingar voru gerðar á 92. grein tekjuskattslaga í lok síðasta árs sem tók í gildi 1. janúar og kemur í fyrsta skipti til framkvæmda árið 2017. Skuli Eggert segir þetta skipta gríðarlegu máli: „Vegna þess að við fáum allar upplýsingar um erlendar bankainnistæður með þessum hætti. Nú geta menn ekki lengur leynst í ákveðnum ríkjum undir nafnleynd.“

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV