Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ekki í innanríkisráðuneyti við uppreist æru

03.08.2017 - 20:13
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir að hann hafi ekki komið að ákvörðun um að veita Róbert Downey uppreist æru. Hann segir í færslu á Facebook að í tilefni af því að hann sé krafinn um svör vegna ákvörðunarinnar vilji hann árétta að hann hafi ekki gengt embætti innanríkisráðherra þegar málið var til lykta leitt. Hann hafi hvorki gengt embættinu þegar málið fór fyrir ríkisstjórn til kynningar né þegar bréf þess efnis var sent forseta til staðfestingar.

Fréttastofa spurði Bjarna um aðkomu hans að málinu í júní síðastliðnum. Þá sagðist hann ekki hafa haft aðkomu að ákvörðuninni, en hinsvegar tekið við niðurstöðunni þegar málið hafði fengið hefðbundna meðferð í ráðuneytinu. Mátti þá skilja hann sem svo að hann hafi verið starfandi innanríkisráðherra, enda hafði hann áður leyst Ólöfu Nordal af vegna veikinda hennar. Samkvæmt upplýsingum úr forsætisráðuneytinu átti Bjarni við í viðtalinu að hann hafi tekið við niðurstöðunni á ríkisstjórnarfundi eins og aðrir ráðherrar. 

Samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu undirritaði Ólöf Nordal, þáverandi innanríkisráðherra 14. september 2016 tillögu til forseta Íslands um að veita Robert Downey uppreist æru og Sigurður Ingi Jóhannsson, þáverandi forsætisráðherra, kynnti tillöguna í ríkisstjórn næsta dag. Forseti samþykkti tillöguna 16. september og forsætisráðuneytið sendi innanríkisráðuneytinu bréf 20. september þar sem fram kom að forseti Íslands hefði fallist á tillögu innanríkisráðherra um að veita Robert Downey uppreist æru. Bjarni Benediktsson var ekki starfandi innanríkisráðherra á þeim tíma.
 

einar's picture
Einar Þorsteinsson
Fréttastofa RÚV