Ekki hjóla á Kjalarnesi eða Hellisheiði

Mynd með færslu
 Mynd:

Ekki hjóla á Kjalarnesi eða Hellisheiði

25.08.2014 - 19:35
Landssamtök hjólreiðamanna hafa beint þeim tilmælum til hjólreiðafólks að það hjóli ekki Kjalarnesið eða Hellisheiðina því aðstæðurnar þar séu taldar hættulegar fyrir bæði hjólreiðamenn og ökumenn.

Vinsældir hjólreiða hafa farið stöðugt vaxandi á undanförnum árum, og verður það sífellt algengari sjón að sjá hjólreiðamenn á þjóðvegum landsins. Landssamtök hjólreiðamanna hafa hins vegar lýst áhyggjum yfir því, að aðstæður til hjólreiða séu víða slæmar, þá sérstaklega í nágrenni höfuðborgarsvæðisins þar sem umferðin er hvað þyngst. Sesselja Traustadóttir framkvæmdastjóri Hjólafærni á Íslandi segir að ekki sé gert ráð fyrir að fólk geti hjólað á Kjalarnesinu.

„Og fyrir það fyrsta, þá finnst okkur það sorglegt þegar það kemur að íbúum borgarinnar sem búa í Grundarhverfi, að þeir eiga þess ekki kost að hjóla til borgarinnar, þeir geta ekki hjólað í bæinn því það eru engar slíkar aðstæður fyrir hendi."

Sesselja segir að vegrifflur meðfram veginum, sem eru til þess að vekja ökumenn sem dotta undir stýri, séu afar slæmar fyrir hjólreiðamenn, og þrengi mjög að þeim. Í ljósi þessara aðstæðna vill Sesselja beina ákveðnum tilmælum til þeirra sem ætla að hjóla út á land „Sleppið Kjalarnesi, sleppið Hellisheiðinni, takið strætó. Það er miklu, miklu skemmtilegra.  Vegna þess hversu umferðin er leiðinleg, og vegna þess hversu mikið er þrengt að hjólreiðafólki. Það eru rifflurnar sem skemma þetta dálítið mikið. Við fáum enga vegöxl og okkur líður ekki vel þar." Sesselja segir að þessar aðstæður geti verið hættulegar fyrir alla. 

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðinnar, segir að samkvæmt samgönguáætlun sem gildir frá 2019 til 2022 sé gert ráð fyrir að búa til 2+1 veg frá hringtorginu við Þingvallaafleggjara og upp fyrir Mógilsá. Það þýði að vegurinn verði breiðari, og að ef ekki verður gerður hjólastígur meðfram honum verði vegaxlirnar töluvert breiðari en nú er, og aðstæður til hjólreiða því mun betri. Hið sama eigi við um Hellisheiði.