Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ekki hefur áður reynt á keðjuábyrgð fyrir dómi

08.07.2019 - 14:23
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fyrirtækið Eldum rétt hefur hafnað öllum sáttatilboðum Eflingar og neitað að gangast við lögbundinni ábyrgð sem notendafyrirtæki í máli fjögurra starfsmanna sem fyrirtækið leigði af starfsmannaleigunni Mönnum í vinnu. Lögmaður Eflingar segir alveg ljóst að fyrirtækið beri ábyrgð í málinu. Þetta er í fyrsta sinn sem mál tengt lögum um keðjuábyrgð fer fyrir dóm hér á landi.

Efling stefndi Eldum rétt í júní vegna meðferðar á fjórum starfsmönnum fyrirtækisins. Mennirnir eru frá Rúmeníu og voru ráðnir til starfa í gegnum starfsmannaleiguna Menn í vinnu. Efling segir að mennirnir hafi verið látnir sæta þvingun, vanvirðandi meðferð og brotum á ýmsum réttindum í samræmi við kjarasamninga.

Þrjú önnur fyrirtæki, sem áttu einnig í viðskiptum við starfsmannaleiguna, fengu kröfu frá Eflingu með vísun til laga um keðjuábyrgð. Þau gengust öll við ábyrgð sinni gagnvart verkamönnunum og féllust á að greiða kröfurnar. 

Í fyrra voru gerðar breytingar á lögum um keðjuábyrgð sem fela í sér að notendafyrirtæki bera ábyrgð á að starfsmenn sem vinna fyrir þau, en eru leigðir af starfsmannaleigum, njóti lögbundinna og kjarasamningsbundinna lágmarkskjara.

Eldum rétt hefur í tvígang hafnað sáttaboði Eflingar og fer málið því fyrir dómstóla. Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Eflingar, segir að fyrirtækið geti ekki firrt sig ábyrgð, klárt sé í lögum hvar ábyrgðin liggi. „Þessi lög voru sett til þess að tryggja sem besta stöðu verkamanna sem fara þá leið að vera starfsmenn starfsmannaleigu og stafsmannaleigurnar selja svo til annarra fyrirtækja og þar ræður verkamaðurinn engu og hefur litlar upplýsingar um starfsmannaleiguna. Það má segja að kaupandi þjónustunnar beri hlutlæga ábyrgð. Það sé ekki hlutverk verkamannanna að sýna fram á sök eða stórfellt gáleysi hjá honum, það er nægilegt að verkamennirnir hafi ekki fengið réttindi sín uppfyllt til þess að ábyrgðin verði virk,“ segir hann. 

Ekki hefur áður reynt á lög um keðjuábyrgð fyrir dómstólum. Ragnar segir að verði Eldum rétt dæmt ábyrgt sé líklegt að önnur fyrirtæki sem eigi í viðskiptum við starfsmannaleigur gæti sín betur og gangi úr skugga um að starfsmannamál séu í lagi. 

„Þessir verkamenn þeir koma til landsins, þekkja lítt til, skilja ekki tungumalið og vita lítið um réttindi sín og þess vegna eru þessi lög afar mikilvæg. Það þarf að gæta að mannlegri virðingu þessara verkamanna og vernda hana og koma i veg fyrir að komið se fram við þá á vanvirðandi hátt og það er verkalýðsfélagið sem gripur þarna inn í svo svo verði.“