Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ekki hægt að tryggja að neyðarboðin berist

13.03.2017 - 19:36
Innlent · Katla
Mynd: Lögreglan á Suðurlandi / Lögreglan á Suðurlandi
Ekki er hægt að tryggja að neyðarboð vegna Kötlugoss berist í alla farsíma í námunda við gosið, samkvæmt Póst- og fjarskiptastofnun. Í nágrenni Sólheimajökuls hefur fólk aðeins 15 mínútur til að forða sér.

 

Nokkur ókyrrð hefur verið í Kötlu undanfarið. Gos í Kötlu valda oftast miklum jökulhlaupum, jafnvel hamfarahlaupum. Flóðafarvegirnir eru þrír. Einn er eftir Mýrdalssandi og Múlakvísl, annar undan Sólheimajökli og eftir Jökulsá á Sólheimasandi og sá þriðji eftir Markarfljóti og niður Fljótshlíð. Þessi svæði þyrfti að rýma, kæmi til goss og fyrirvarinn getur verið mjög skammur, aðeins fimmtán mínútur við Sólheimajökul. Þegar rýma þarf verða send boð í alla farsíma á svæðinu. Íbúar í nágrenni Sólheimajökuls hafa kvartað undan slæmu farsímasambandi og það hefur Póst- og fjarskiptastofnun staðfest.

„Það er auðvitað aldrei hægt að tryggja að allir fái boðin,“ segir Þorleifur Jónasson, forstöðumaður tæknideildar Póst- og fjarskiptastofnunar. Verst er farsímasambandið undir Sólheimajökli. 

„En það er rétt að hafa í huga að þau kerfi sem við þekkjum, þessi almennu fjarskiptakerfi, gms, 3g og 4g, þetta eru almenn fjarskiptakerfi ekki öryggiskerfi. En það er hins vegar ekki hægt að gera sömu kröfur til þessara kerfa eins og t.d. tetrakerfis Neyðarlínunnar. Það sem við þurfum hins vegar að gera er það að við þurfum að tryggja að sendastaðirnir á rýmingarsvæði Kötlu að þeir haldist gangandi þrátt fyrir hugsanlega náttúruvá,“ segir Þorleifur. 

Póst- og fjarskiptastofnun hefur mælt farsímasamband á þjóðvegakerfi landsins. Næsta verkefnið er að mæla sambandið á öllum hálendis- og háfjallavegum. Þorleifur segir að það hlutverk símafyrirtækjanna að setja upp senda og þau hafi þegar uppfyllt þær kröfur sem gerðar eru til þeirra og gott betur en það. „Póst- og fjarskiptastofnun er hins vegar ekki í því að byggja eða aðstoða við uppbyggingu. Það eru fjarskiptafélögin sjálf og svo hefur Fjarskiptasjóður einnig komið að því að styrkja slík verkefni,“ segir Þorleifur.

Stendur það upp á Fjarskiptasjóð að setja upp fleiri senda á þessu svæði? „Ja, Fjarskiptasjóður eins og ég sagði hefur komið að því að byggja upp eða styrkja uppbyggingu á svæðum þar sem hann telur að öryggi sé mikilvægt,“ segir Þorleifur. Fjarskiptasjóður heyrir undir innanríkisráðuneytið.