Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ekki hægt að leyfa 110 kílómetra hraða á neinum vegi

18.02.2020 - 07:05
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Enginn vegur á Íslandi uppfyllir skilyrði laga fyrir því að hækka leyfilegan hámarkshraða í 110 kílómetra á klukkustund. Vegagerðin hefur engin áform um að leggja til slíka hækkun. 

Lögum samkvæmt er hámarkshraði á vegum úti 90 kílómetrar á klukkustund. Þó er heimild til að leyfa allt að 110 kílómetra hraða ef akstursstefnur eru aðgreindar og önnur skilyrði uppfyllt.

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður utan þingflokka, spurði Sigurð Inga Jóhannsson samgönguráðherra á hvaða vegarköflum hefði komið til álita að hækka hámarkshraðann. Stutta svarið er: engum. Því enginn íslenskur vegur uppfyllir skilyrði fyrir því að hækka hraðann.

Reykjanesbraut milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur uppfyllir nokkur skilyrðanna fyrir 110 kílómetra hámarkshraða en ekki öll. Þannig er öryggissvæði við veginn ekki nógu breitt, og ljósastaurar norðan brautarinnar gætu valdið slysi ef ekið er á þá. Auk þess er ekki búið að ganga frá svæðinu milli gagnstæðra akreina þannig að bílar geti ekki farið yfir á vitlausan vegarhelming. Loks er ekki hægt að banna hjólreiðar á Reykjanesbrautinni þar sem hjólreiðafólki hefur ekki verið tryggð örugg leið milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur. 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV