Ekki gott að deila um Landsrétt

16.09.2017 - 18:23
Mynd með færslu
 Mynd: Rúv - RÚV
Trausti Fannar Valsson, dósent í stjórnsýslurétti segir ekki gott fyrir nýjan Landsrétt hvernig deilt hefur verið um skipan dómara en hafa beri í huga að allir sem skipaðir voru í dóminn hafi fullnægt ströngum skilyrðum. Hann segir að áhugavert verði að sjá umfjöllun Hæstaréttar en niðurstaðan komi ekki til með að hafa áhrif á skipan Landsréttar

Ástráður Haraldsson og Jóhannes Rúnar Jóhannsson stefndu ríkinu vegna skipunar dómara í Landsrétt þar sem ekki var farið eftir tillögum hæfisnefndar. Héraðsdómur birti dóminn í gær og var ríkið sýknað af kröfum lögmannanna en í dómnum kemur fram að dómsmálaráðherra hafi brotið lög við skipunina. Þar segir að stjórnsýslumeðferð ráðherra hafi ekki verið í samræmi við lög nr. 50/2016. Einnig segir að mat dómnefndarinnar hafi verið háð efnislegum annmörkum. Lögmennirnir hafa ákveðið að áfrýja niðurstöðu héraðsdóms til Hæstaréttar.  

Trausti Fannar segir að dómarnir sem gengu í vikunni hafi ekki afleiðingar fyrir Landsrétt, hafi ekki áhrif á skipan þeirra dómara sem þegar hafa verið skipaðir í embætti. Kröfu lögmannanna um að dómstólar ógildi ákvörðun dómsmálaráðherra hafi verið vísað frá dómi fyrr í sumar og nú sé einungis verið að fjalla um bótarétt þeirra.   

Má búast við því að þessar deilur hafi áhrif á trúverðugleika Landsréttar?
„Það er ekki gott fyrir nýjan Landsrétt að staðið var að undirbúningi málsins með þeim hætti sem að var gert. Við eigum eftir að fá niðurstöðu Hæstaréttar í þetta mál, umfjöllun hans um það og það verður mjög áhugavert að sjá þá niðurstöðu.“ 

„En við getum þó haft líka í huga að það voru ströng skilyrði sem allir umsækjendur þurftu að fullnægja og allir þeir dómarar sem eru skipaðir fullnægja þeim án nokkurs vafa.“

„Það kann vel að vera að einhverjir láti reyna á það við meðferð einstakra mála sem að í framtíðinni koma til meðferðar Landsdóms að ekki hafi verið rétt skipað í dóminn það er frekar fjarlægur möguleiki.“