Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Ekki gos en varasamt að stoppa við ána

08.07.2014 - 21:22
Mynd með færslu
 Mynd:
Jarðvísindamenn flugu yfir Mýrdalsjökul í kvöld, vegna vatnavaxta í Múlakvísl og Jökulsá á Sólheimasandi. Engar vísbendingar eru um gosvirkni í Kötlu.

Almannavarnir lýstu í dag yfir óvissustigi vegna vatnavaxta í Múlakvísl og Jökulsá á Sólheimasandi en veðurstofan telur að hlaupvatn sé komið í árnar. Vísindamenn þar á bæ telja þó að hlaupið verði lítið. Samt hafa þeir sem sinna ferðaþjónustu á svæðinu verið varaðir við að vaxið geti verulega í ánum. Jarðvísindamenn flugu yfir Mýrdalsjökul í kvöld til að meta ástandið og tóku um leið þessar myndir. 

Það er ljóst að það er jarðhitavatn sem er að leka úr kötlunum, en það er ekkert sem bendir til þess að þetta sé stóratburður,“ segir Björn Oddsson, jarðeðlisfræðingur hjá almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra.

Of skýjað var yfir hájöklinum til að hægt væri að greina nákvæmlega hvaðan vatnið kæmi, en hér má þó sjá það koma undan jöklinum.

Það sem við vorum að reyna að sjá var að fara upp á jökulinn sjálfan, hábunguna, og fylgjast með kötlunum eða jarðhitakötlunum sem þar eru. Og þá getum við séð hvaðan vatnið kemur. Það tókst ekki. Þannig að við fórum upp að upptökunum þar sem við sáum að það var greinilegt jarðhitavatn sem var að koma undan. En það voru ekki miklar jakadreifir eða neitt slíkt,“ segir Björn.

Björn segist ekki endilega búast við frekari virkni næstu daga. Það er bara vel fylgst með og ef það verður einhver aukning þá skoðum við málið upp á nýtt.“ Hann segist ekki telja um að eiginlegt hlaup sé að ræða, en jarðhitavatn leki vissulega úr kötlunum og það meira en venjulega.

Öllum sem þarna eiga leið um er bent á að hafa farsíma opna svo hægt sé að koma til þeirra skilaboðum ef hætta steðjar að. Ekki hefur orðið vart við jarðskjálfta sem taldir eru vera undanfari Kötlugoss. Engar sérstakar vísbendingar eru því um gosvirkni, en vel verður fylgst með á næstu dögum.

Vegna brennisteinsvetnis sem berst úr Múlakvísl er ferðafólki ráðlagt að gæta varúðar í nágrenni hennar. Fólki er ráðið frá því að stoppa við ána.