Ekki fleiri rostungar síðan á 18. öld

Mynd með færslu
 Mynd:

Ekki fleiri rostungar síðan á 18. öld

27.09.2013 - 18:15
Á þessu ári hafa fleiri rostungar sést hér við land en nokkru sinn síðan á 18. öld. Ævar Petersen, dýrafræðingur, segir hugsanlegt að rostungastofninn sé að styrkjast og þá geti bráðnun íss á norðurslóðum valdið því að dýrin fari meira á flakk.

Rostungar hafa sést hér við land að minnta kosti sex sinnum frá því sumarbyrjun og eftir því sem næst verður komist er um fjögur dýr að ræða. Sami rostungur sást í sumar í Reyðarfirði, Berufirði og á Breiðamerkursandi.

Annað dýr tók land við Skálanes í Seyðisfirði og nú í vikunni sá hvalaskoðunarfólk þann þriðja rétt við höfnina á Húsavík. Í gær birtist svo enn einn rostungurinn á Borgarfirði eystra, en fullvíst er talið að það sé ekki sá sami og við Húsavík.

Ævar Petersen, dýrafræðingur, segir afar sjaldgæft að svo margir rostungar sjáist hér á svo skömmum tíma. „Miðað við þær skráningar sem til eru, þá verður að fara æði langt aftur. Eiginlega til 1708 til þess að fá eitthvað sambærilegt,“ segir Ævar.

Og erfitt sé að segja til um ástæður þess að rostungunum fjölgi hér við land. Hugsanlega tengist þetta stofnbreytingum. „Stofninn er eitthvað sterkari fyrir norðan okkur. Það var gengið ansi mikið á hann með veiðum hér á árum áður, en hann hefur verið að rétta úr kútnum.“

Þá séu rostungar, líkt og hvítabirnir, háðir ísnum í norðurhöfum og bráðnun hans geti hrakið þá á flakk. Og Ævar segir aldrei að vita nema rostungar fari að venja komur sínar oftar hingað til lands þótt langt sé í að þeir verði jafn margir og sagnir herma fyrr á öldum. „Haustið 1708 er talað um yfir 30 rostunga á Austfjörðum og þar af  28 á Borgarfirði eystra.“