Ekki farið eftir stærstu ábendingunni

07.01.2020 - 20:51
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Landspítalinn fór ekki eftir stærstu ábendingunni sem kom fram í skýrslu Landlæknisembættisins um leiðir til að draga úr skorti á hjúkrunarrýmum og fráflæðisvanda bráðamóttökunnar. Þetta sagði Alma Möller landlæknir í Kastljósi í kvöld. Tillögurnar komu fram í skýrslu embættisins fyrir ári og í eftirfylgniskýrslu í haust kom fram að farið hefði verið eftir mörgum ábendingum en ekki þeirri veigamestu.

Alma sagði í Kastljósi í kvöld að unnið hefði verið að umbótum á Landspítalanum, en ekki farið eftir öllum tillögum. „Það hafði ekki verið unnið með kannski mikilvægustu ábendingu okkar sem var að annað hvort dreifa sjúklingunum jafnar á deildir, og þá kannski starfsfólkinu líka, eða opna sérstaka biðdeild, aðlægt bráðamótttökunni, einmitt til þess að sjúklingar þyrftu ekki að bíða á bráðamóttöku. Þar eru þeir á göngum því sú deild er ekki hönnuð til að vera legudeild. Hún er orðin fimmtíu ára gömul og hönnuð til þess að vera göngudeild.“

Alma sagði að Landlæknisembættið hefði gert athugasemdir við þetta og fengið þær skýringar að ekki hefði verið nægilega góð samvinna milli eininga á Landspítalanum. Síðan þá hefði forstjóri spítalans farið í skipulagsbreytingar sem eiga að auka samvinnu milli deilda. 

Húsnæðismálin skýra vandann líka að hluta, sagði Alma. „Það vinnur ekki með að við erum, ég myndi segja tíu til fimmtán árum of sein, að byggja nýjan spítala. Húsnæðismálin eru stór þáttur.“