Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Ekki fallegt að ráðast á gamlar minjar

18.08.2015 - 17:36
Mynd með færslu
 Mynd: Stefán Ingvar Guðmundsson - Facebook
Mynd með færslu
 Mynd: Stefán Ingvar Guðmundsson - Facebook
Mynd með færslu
Dagverðará áður en krotað var á húsið. Mynd: Stefán Ingvar Guðmundsson
„Mér finnst ekki fallegt að ráðast á gamlar minjar,“ segir Stefán Ingvar Guðmundsson, sjómaður og ljósmyndari frá Ólafsvík um veggjakrot sem blasti við honum þegar hann kom að Dagverðará á Snæfellsnesi í dag.

Stefán myndaði krotið og birti í hópnum Bakland ferðaþjónustunnar á Facebook.

Ferðalangar sem þarna hafa verið á ferð hafa séð ástæðu til að merkja sér eyðibýlið með nöfnum sínum, Chris og Lena, og ártalinu. „Þetta er kannski ómerkilegt í augum fólks en svona staðir gætu haft tilfinningalegt gildi fyrir fólk á svæðinu. Þessu ferðafólki hefur greinilega fundist þetta eitthvað sniðugt, en fólk verður að virða náttúruna,“ segir Stefán. 

Hann telur að krotað hafi verið á húsið í vikunni því krotið hafi ekki verið þarna fyrir fimm til sex dögum. Veggjakrotið innan í húsinu sé hinsvegar mun eldra og eftir aðra. Hann fann einn brúsa inni í húsinu og tók hann með sér þó hann segist ekki viss um hver eigi að verða næstu skref.  

Hann segir að býlið sé fólkinu á Snæfellsnesi kært. „Þetta er á sunnudagsrúntinum okkar, þetta svæði hringinn í kringum jökulinn. Fólk fer þarna í ber og það er algengt að stoppa þarna og taka myndir af húsinu og jöklinum.“

Lífskúnstner kenndur við býlið
Stefán segir að staðurinn sjálfur sé merkilegur. Helga Halldórsdóttir og maðurinn hennar byggðu búið en bróðir hennar, Þórður, var alltaf kenndur við það. Hann hafi verið þekktur lífskúnstner. 

Mögnuð draugasaga er einnig tengd húsinu, segir Stefán. Þegar Helga og maðurinn hennar hófu að byggja á jörðinni voru þarna gamlar tóftir. „Þau voru eitthvað að grafa í þeim og finna mannabein og ákveða að láta þau vera. Um nóttina dreymir Helgu að maður kemur og segist eiga beinin og að sér leiðist einn í húsinu sínu og spyr hvort hann megi ekki taka bólfestu hjá þeim. Helga segir honum að hann megi vera á háaloftinu og í stofunni þegar þar sé enginn.“ Síðan fylgi sögunni að þau hafi orðið vör við draugagang í stofunni þegar enginn var þar og á háaloftinu var oft eins og þar væri einhver að smíða og saga. „Þegar maðurinn hennar Helgu liggur banaleguna segist hann ætla að gera manngreyinu greiða og taka hann með sér þegar hann deyr.“ Stefán segir að samkvæmt draugasögunni hafi umgangurinn hætt þegar eiginmaður Helgu lést.

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV