Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Ekki endilega slæmt fyrir neytendur“

10.11.2018 - 13:35
Mynd: Óðinn Jónsson / Morgunvaktin
Brynhildur Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna, telur að fyrirhuguð sameining Icelandair og WOW air eigi ekki eftir að hafa slæm áhrif fyrir neytendur. Hún vonast til að sameining flugfélaganna styrki rekstur þeirra.

Brynhildur sagði í Vikulokunum að Neytendasamtökin hafi verið byrjuð að undirbúa aðstoð við neytendur ef WOW færi á hausinn. Þá hafi verið horft til þess sem gerðist þegar Air Berlin fór í þrot, en neytendur fari aftast í röðina með kröfur í þrotabú. „Þetta leit ekki vel út. Mér fannst ótrúlegt að þessu hafi verið siglt svona í land.“

Brynhildur segir að sameining væri þá betri niðurstaða og þurfi að hennar mati ekki að hafa í för með sér verri kjör fyrir neytendur. 

„Ég held að þetta sé ekki endilega slæmt fyrir neytendur. Ég man þegar Icelandair var svo að segja allsráðandi á markaði og Samvinnuferðir-Landsýn fóru að fljúga til Kaupmannahafnar og London og þá bara þurrkaði Icelandair út þá samkeppni einfaldlega með því að lækka verð á þessum tveimur flugferðum. Þetta gerðist aftur þegar Iceland Express kom til sögunnar. Og við neytendur kannski svolítið dofnir í því að við héldum áfram að kaupa af gamla fyrirtækinu sem lækkaði verðið, það var náttúrlega alvarlegt samkeppnislagabrot sem var þarna var í gangi. Ég held að við séum komin á einhvern stað núna að við erum ekkert að fara að fíla svona aðferðir. Ég held að Icelandair viti það alveg. Þeir þurfa að koma á móts við sína viðskiptavini og þeir geta ekkert farið að okra á okkur aftur. Það er nóg af flugfélögum þá sem geta stækkað sína markaðshlutdeild hér.“

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sagði í fréttum í vikunni að hann teldi að samruninn sjálfur ætti ekki eftir að hafa áhrif á flugfargjöld heldur eitthvað annað. Flug hafi verið selt of lágu verði og það sé ekki sjálfbært til lengri tíma. Áfram verði mikil samkeppni við stór erlend flugfélög, tæplega 30 erlend flugfélög fljúgi til og frá landinu.