Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ekki bótaskylt vegna staðgengils Max-vélanna

12.02.2020 - 15:15
Mynd með færslu
Kyrrsettar Boeing 737 MAX þotur. Mynd: RUV
Samgöngustofa hefur komist að þeirri niðurstöðu að Icelandair sé ekki bótaskylt vegna þeirra véla sem notaðar eru í stað 737 Max-vélanna en þær hafa verið kyrrsettar eftir tvö mannskæð flugslys. Þrír farþegar á leið frá Keflavík til Billund í Danmörku kröfðu flugfélagið um bætur og sögðu að vélin sem Icelandair hefði notað í staðinn fyrir Max-vélina hefði verið ósnyrtileg, með litlu fótaplássi og óþægilegum sætum.

Icelandair sagði í svari sínu að umrædd vél hefði verið tekin á leigu til að halda flugáætlun með sem minnstri röskun vegna kyrrsetningarinnar á 737 Max 8-vélunum. 

Farþegum hefði verið tjáð að vélarnar væru eingöngu starfræktar í því skyni að sporna við því að ferðir væru felldar niður vegna flugvélaskorts. 

Icelandair benti á að fótarými í öllum sætum væri sambærilegt því sem gengi og gerðist í öðrum flugvélum félagsins.  Þá væri ekki hægt að tryggja nokkuð sæti áður en vél færi í loftið þar sem óvæntar aðstæður gætu leitt til þess að sætunum yrði breytt.

Farþegarnir sögðu þetta vera í fyrsta skipti sem þeir væru að fara saman til útlanda. Einn í hópnum væri með bakverki og því hefði umrædd breyting valdið honum óþægindum. Þeir hefðu verið tilbúnir að borga aukagjald fyrir þá þjónustu sem væri yfirleitt í boði í vélum Icelandair; skjáir í sætisbökum, aðgangur að neti og stærri og þægilegri sæti.  Þá sögðu þeir að vélin sem var notuð hefði ekki verið snyrtileg, fótapláss lítið og sætin óþægileg.

Samgöngustofa féllst ekki á kröfur farþeganna og taldi þá ekki geta krafist skaðabóta á grundvelli þess að þeir hefðu verið niðurfærðir á lægra farrými.  Sætin hefðu eingöngu breyst þar sem minni farþegaþota var notuð í ferðina.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV