Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Ekki bara kurteisisheimsókn“

03.09.2019 - 17:19
Mynd: RUV / RUV
Prófessor í sagnfræði segir að heimsókn varaforseta Bandaríkjanna hingað til lands sé ekki bara kurteisisheimsókn. Bandaríkjamenn vilji gera sig meira gildandi í stórveldapólitíkinni á norðurslóðum og vilji ræða stöðu Íslands í því samhengi

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, kemur í stutta heimsókn á morgun og mun væntanlega ná að ræða bæði við utanríkisráðherra og forsætisráðherra.

Ég er kristinn, íhaldsmaður og Repúblikani í þessari röð, segir Mike Pence þegar hann lýsir sjálfum sér. Það eru að sjálfsögðu tíðindi að varaforseti Bandaríkjanna staldri hér við. En hvað má lesa í þessa heimsókn og hvert er erindið? Guðmundur Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði og forstöðumaður hugvísindasviðs Háskóla Íslands segir að það sé einkum tvennt.

„Í fyrsta lagi ef við lítum á þetta í lengri tíma þá eru samskiptin við Ísland Bandaríkjunum mikilvæg, vegna þess að Ísland er á hernaðarmikilvægum stað. Hér var herstöð til skamms tíma og Bandaríkin vilja halda áfram aðgangi sínum að þessari herstöð. Þetta almenna samband Íslands og Bandaríkjanna skiptir þau máli. Hins vegar eins og við höfum séð nýlega þá hafa Bandaríkjamenn áhyggjur af því sem er að gerast í Norður-Atlantshafinu. Þessi arktíski vinkill sem kom svona einkennilega út í hugmyndum Trump um að kaupa Grænland. Þannig að sjálfsagt er það í huga Pence þegar hann kemur til Íslands, hvaða hlutverki eða hvað stöðu Ísland hefur í þeirri stórveldapólitík sem þar fer fram,“ segir Guðmundur.

Mynd með færslu
 Mynd: Kiljan - RUV
Herstöðin á Miðnesheiði.

Varnarsamningurinn enn í gildi

Í fréttatilkynningu frá Hvíta húsinu um miðjan síðasta mánuð kom fram að Pence myndi ræða við ráðamenn hér um mikilvæga staðsetningu Íslands á Norðurslóðum, stefnu NATO um að draga úr auknum umsvifum Rússa á norðurhveli og loks möguleika á auknum viðskiptum Íslands og Bandaríkjanna. Bandaríkjamenn hafa aukið nærveru sína á Íslandi að undanförnu en stefna þeir að auknum umsvifum hér? 

„Það er alveg hugsanlegt. Varnarsamningurinn er í gildi enn þá þó svo að herstöðin sé ekki hér. Þannig að Bandaríkjamenn telja sig hafa möguleika á að geta komið hingað með tiltölulega stuttum fyrirvara. Það á eftir að koma í ljós hvað gerist ef þeir sækja það fast. Þannig að það hefur í sjálfu sér ekki breyst. Ísland er enn á sama stað í miðju Atlantshafinu.“

Stórveldin hafa áhuga á að stjórna heiminum

Hann bendir á að áður hafi Ísland verið annar endinn á mikilvægu hernaðarsvæði milli Íslands og Bretlands. Bandaríkjamenn hafi haft mjög gott yfirlit yfir allar hreyfingar Sovétríkjanna í Norður-Atlantshafi. Nú beinist áhuginn að norðurslóðum.

„Menn eru að setja sig í startholurnar. Að menn séu tilbúnir ef að eitthvað opnast þarna, að þá hafi þeir möguleika til að stýra þessu. Stórveldi hafa áhuga á að stýra heiminum. Það hefur alltaf verið þannig. Bandaríkin eru stórveldi og þess vegna vilja þau og telja sig eiga rétt á eða þurfi að gera sig gildandi með sterkari hætti en verið hefur,“ segir Guðmundur.

Guðmundur bendir á að í raun hafi Bandaríkjamenn nokkuð góðan aðgang að norðurslóðum í gegnum NATO, hernaðarsamstarf við Danmörku og hernaðarumsvif á Íslandi. Klaufalegt útspil Donalds Trump um að kaupa Grænland hafi kannski verið dæmi um áhuga Bandaríkjamanna á að gera sig gildandi á þessum slóðum.

„Það er eins og þetta upphlaup hafi gert það að verkum að þeir viti ekki alveg hvernig þeir eigi að gera sig gildandi á þessu svæði. Þeir vilja það en hvernig það á að gerast er ekki alveg ljóst. Sjálfsagt er það eitt af því sem talað verður um.“

epaselect epa07672994 US Vice President Mike Pence speaks during the launching of 'Latinos for Trump' coalition at the DoubleTree by Hilton Hotel Miami Airport & Convention Center in Miami, Florida, USA, 25 June 2019. 'Latinos for Trump' coalition is a national effort to mobilize Latino supporters of President Trump during his 2020 election campaign.  EPA-EFE/CRISTOBAL HERRERA
 Mynd: EPA
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna.

Vilja hafa ákveðna viðveru

En eftir hverju sækjast stórveldin? Guðmundur segir að það séu ekki endilega auðlindir sem kunni að vera þarna heldur strategísk staða þeirra. Reiknað sé með að siglingaleiðir opnist yfir norðurskautið. 

„Kínverjar hafa sýnt áhuga á að fjárfesta á Grænlandi. Rússar eru að gera sig gildandi á arktíska svæðinu enda eiga þeir reyndar mjög langa strönd að Norður-Íshafinu. Þannig að Bandaríkjamenn kannski vilja sjá til þess að þeir geti að minnsta kosti fylgst með. Geti haft ákveðna viðveru á þessu svæði sem stórveldi til að geta haft áhrif á það hvernig Rússar og Kínverjar spila þennan leik,“ segir Guðmundur.

Kemur ekki nema að eiga erindi

Guðmundur segir ekki ólíklegt að viðskipti verði rædd, ekki síst í ljósi þess að Bandaríkjamenn hafi lofað Bretum stórum fríverslunarsamningi eftir Brexit. Það kemur í ljós á morgun hvert umræðuefnið verður en það eru tíðindi að varaforseti Bandaríkjanna komi hér við.

„Þessir pótintátar koma ekki til landa nema að þeir telji sig hafa eitthvert erindi þangað. Þetta er ekki bara kurteisisheimsókn. Hann er að koma vegna einhverra erinda sem hann er að reka. Þetta er allt sveipað dálítilli hulu sem er gjarnan með svona heimsóknir. Menn vilja spila þessi spil dálítið á bak við tjöldin. Jú, þetta eru tíðindi og við skulum sjá hvað gerist. Það getur vel verið að þessi heimsókn hafi að einhverju leyti verið hugsuð í tengslum við væntanlegan fund Donalds Trump og danskra og grænlenskra yfirvalda sem var blásinn af. Það getur vel verið að þar hafi átt að vera einhver tengsl á milli. Þau eru væntanlega horfin en við skulum bara sjá til,“ segir Guðmundur.

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV