Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ekki áminntur fyrir ummæli um Menn í vinnu

16.02.2019 - 16:28
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Úrskurðarnefnd lögmanna hefur ákveðið að áminna ekki Tryggva Agnarsson, lögmann starfsmannaleigunar Manngildis, fyrir ummæli sem hann lét falla í tveimur fréttum á visir.is og dv.is. Fréttirnar snerust meðal annars um harðar deilur eiganda Manngildis og eiganda starsfmannaleigunnar Manna í vinnu. Þeir höfðu áður unnið saman hjá annarri starfsmannaleigu, Verkleigunni,sem varð gjaldþrota í maí 2018.

Í úrskurði nefndarinnar hafa allar upplýsingar um nöfn verið máðar út. Með því að slá upp þeim ummælum sem Tryggvi lét falla í viðtölunum á leitarvélinni Google er hægt að sjá í hvaða fréttir er verið að vísa. 

Fyrri fréttin er frá því í um miðjan nóvember fyrir tveimur árum. Hún birtist á vef DV undir fyrirsögninni: „Ásakanir um frelsissviptingu og skipulagða glæpastarfsemi...“ Hin fréttin birtist á vef visir.is í október síðastliðnum þar sem fyrirsögnin var „Lögmaður starfsmannaleigunnar Manngildis sver fyrir aðkomu eigandans að vegabréfafölsun.“

Af lestri úrskurðarins er augljóst að deilurnar milli forsvarsmanna starfsmannaleiganna hafa verið býsna hatrammar.

Forsvarsmenn Manna í vinnu töldu að Tryggvi hefði með ummælum sínum í þessum viðtölum brotið „alvarlega og ítrekað gegn ákvæðum siðareglna lögmanna.“ Hann hefði á opinberum vettvangi með persónugreinanlegum hætti haldið því fram að forsvarsmenn fyrirtækisins og starfsmenn þess hefðu framið refsiverðan verknað. Slíkt væru ærumeiðandi aðdróttanir. Í úrskurðinum kemur jafnframt fram að von sé á fleiri kærum til úrskurðarnefndarinnar vegna ummæla Tryggva. 

Tryggvi krafðist þess að kærunni yrði annaðhvort vísað frá eða henni hafnað. Menn í vinnu væru að kæra hann en málið væri byggt á ummælum hans gagnvart tilteknum einstaklingum. Þá sagðist hann hafa haft fyrirvara á ummælum sínum sem hafi gert það að verkum að þau fælu ekki í sér staðhæfingu um staðreyndir.  

Úrskurðarnefndin kemst að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið sýnt fram á að Tryggvi hafi gert Mönnum í vinnu neitt sem stríði gegn lögum eða siðareglum lögmanna. Var kröfum starfsmannaleigunnar því hafnað. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV