Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ekki alveg heimsósómamegin við línuna

Mynd: Forlagið / RÚV

Ekki alveg heimsósómamegin við línuna

05.10.2019 - 15:10

Höfundar

„Heimsósómabækur tilheyra öllum tímum. Það þarf alltaf einhver að grafast fyrir um hvers vegna við mannkynið erum lent í slíkum ógöngum sem við lendum í reglulega vegna okkar eigin óskynsömu hegðunar, sem við eigum eiginlega til ein allra dýra, og það þrátt fyrir að við köllum okkur hinn viti borna mann,“ segir Gauti Kristmannsson í pistli sínum um Skjáskot Bergs Ebba Benediktssonar.

Gauti Kristmannsson skrifar:

Skjáskot eftir Berg Ebba er reyndar ekki alveg ósómamegin við línuna, miklu fremur hoppar hann yfir hana sí og æ í nokkurs konar póstmódernískum ólíkindaleik þar sem viðfangsefnið er mjög heimspekilegt: Hvar stöndum við mannkyn í dag þegar tölvur og gervigreind eru orðin nánast líkamlegur þáttur lífsins? Svörin fást í greinagóðum niðurstöðum undir lokin. 

Einn af ólíkindaleikjum þessarar bókar er að hún er að sumu leyti sett upp eins og fræðileg ritgerð. Rannsóknarspurningin; „Hvað varð um framtíðina“ er sett fram þegar í upphafi og síðan eru oft röksemdafærslur í textanum með og á móti, eins og við á að éta í slíkri ritgerð, og í endann eru niðurstöður rannsóknarinnar dregnar saman í stuttu máli. Bókin skiptist svo í fimm kafla með nokkra undirkafla hver, reyndar ekki númeraða eins og í fræðiritgerðum. Við það bætist svo að það eru aftanmálsgreinar sem vísað er til inni í textanum eins og hefð er fyrir. 

Hugsanlega misskilin írónía

En þetta er samt ekki nein fræðiritgerð. Höfundur beitir tækjum ritlistarinnar líka, smásögunnar og esseyjunnar nokkurn veginn samsíða. Frásagnarhátturinn er einnig mjög huglægur, í fyrstu persónu eintölu og fleirtölu og er lesandinn gjarnan ávarpaður í fleirtölu líka eins og verið sé að tala í útvarp en ekki skrifa fyrir einn lesanda í einu, þennan með bókina fyrir framan sig. Þetta getur verið tvíeggjað sverð, á stundum er býsna mikill besservisserabragur á þessum ávörpum og raunar einnig í ýmsum umræðum og röksemdafærslum sem við höfum mörg heyrt og jafnvel látið frá okkur fara í einni mynd eða annarri. Það er vitaskuld meiri hætta á slíku þegar fjallað er um svo samtímalegt efni eins og samband mannkyns og tölva, hlutverk samfélagsmiðla og svo framvegis. Stundum glittir svo í yfirkennarann þegar verið er að segja frá frægum mönnum sem eru aðeins einu gúgli fjær okkur, eins og höfundur, eða kannski sögumaður, veit ofurvel, þannig að hugsanlega er þetta aðeins misskilin íronía hjá mér. 

Helsti ókosturinn við bókina að mínum dómi, og ég veit að í þessu efni eru margir algjörlega á öndverðum meiði við mig, er stíllinn; þessar stuttu blaðamannasetningar sem tröllríða textanum þannig að punktarnir á síðunni eru eins og veggur eftir vélbyssuskothríð. Nú veit ég að okkur er kennt í skóla að skrifa helst aðalsetningar og nota punkta og að þannig hafi það verið gert í Íslendinga sögum en minna má nú gagn gera. Með þessu móti verður öll röksemdafærsla nánast eins og staðhæfingar sem ekki þarf að rökstyðja frekar og mér sýnist að höfundur neyðist til að búa til blæbrigði með sífelldum spurningum sem einnig ganga í gegnum textann, retorískar gjarnan, en þeim er stundum svarað og stundum ekki. Þetta á kannski að vera við alþýðu skap eins og sagt hefur verið, en hentar ekki vel í nánast heimspekilegri pælingu á samtímanum. 

Snjall smásögulegur snúningur á söguna

Höfundi tekst þó listavel upp sums staðar og kemur lesanda á óvart, einmitt þegar fordómar hans og hugmyndir sem raktar hafa verið hér að ofan hafa náð yfirhöndinni. Fyrsti kaflinn, „Boston“ hefst á einhvers konar sjálfsævisögulegri lýsingu tengdri bílum, öðrum úr barnæsku og hinum sem tekinn hefur verið á leigu í Boston. Akkúrat þegar þessi lesandi var tekinn að finna til nokkurs óþols að lesa um hugleiðingar höfundar um sjálfan sig og Wikipedia-visku um bandaríska sjálfstæðisstríðið um borð í einni af erkitýpum bandarískra bíla, Chevrolet Suburban, kemur býsna snjall smásögulegur snúningur á frásögnina sem gerir manni kleift að skrifa undir samning við höfundinn um áframhaldandi lestur. 

Titillinn á næsta kafla, „Leitin að engri merkingu“ hefði sómt sér vel á póstmódernískri ritgerð á tíunda áratugnum og hann fjallar vissulega um hvernig við samt sem áður finnum merkingu, búum hana til með samhengi hlutanna sem við sjálf setjum þá í líkt og höfundur hefur þegar gert í kaflanum á undan. Það er bara gaman að lesa þetta og einhvern veginn finnst mér að þarna eins og víðar í bókinni, hefði textinn grætt á aukinni stíllegri þyngd. En það er líka dæmi um að ég vilji þröngva mínu samhengi upp á texta sem var ekkert ætlaður mér sérstaklega heldur fullt af öðru fólki sem hefur allt aðrar forsendur en ég. Og kannski er höfundur að gera „normcore“ tilraun með eigin texta og íroníserar það með því að fjalla einmitt um það fyrirbrigði, að reyna að vera frumlegur með því að gera hlutina eins venjulega og hægt er. 

Inngangur að hugleiðingu um myrkrið

Ég nefndi fyrr að höfundur tipli beggja vegna línu sem hann hefur sjálfur dregið í sandinn og það kemur kannski best í ljós þegar hann talar um samband tækninnar og mannsins sem er í raun hið miðlæga viðfangsefni þessarar bókar. Í mjög snotrum undirkafla sem heitir „Langahlíð“ segir frá æskuminningu höfundar þegar hann og bróðir hans fóru í óveðri að sækja uppfærslu á Makkann sinn snemma á tíunda áratugnum; þetta er svona „Veröld sem var“ sögukorn sem við segjum gjarnan; fólk af minni kynslóð sagði oft frá eplayktinni um jólin þangað til yngri kynslóðir fóru að flissa að þessari fortíðarþrá sem var þeim fullkomlega óskiljanleg. Fyrir þeim var þetta eins og fólk færi að segja frá því nánast tárvott að það hefði fengið kartöflu að éta. Þetta margreynda mótíf var sem sagt sett í nýjan búning í Skjáskoti og heppnaðist þannig vel.  

Þetta var þó aðeins inngangur að hugleiðingu um myrkrið sem við fálmum okkur um enn þann dag í dag og er eitt af meginþemum bókarinnar. En kaflanum lýkur með bjartsýnum tón þrátt fyrir það: 

Maðurinn á ekki stríði við vélina. Tölvur munu ekki taka stjórnina. Það er ekkert í myrkrinu nema okkar eigin hugarórar. Hugarórar sem aldrei hafa bergmálað jafn hátt og nú. Hversdagslegar hugleiðingar sérhverrar manneskju hafa fengið byr undir báða vængi – en það er ferli sem hófst fyrir löngu og er aðeins á síðustu árum að ná jafnvægi. (125) 

Strax í næsta undirkafla, sem kallast „Þriggja manna tal“, sem eins og svo margir aðrir gengur út frá einhverri skondinni minningu höfundar um nú úrelta tækninýjung, í þessu tilfelli þegar hægt var að vera með þriggja manna símtal á landlínunni gömlu,  kemur þessi staðhæfing: 

Tæknin hefur sigrað. Vélar munu taka völdin. Það sem hófst með þriggja manna tali hefur stillt manneskjunni upp við vegg. Við erum upp við vegg og þurfum að svara öllum spurningum með nei eða já. Við þurfum að skilgreina okkur strax. Ekki með því að segja til nafns, stéttar eða stöðu. Heldur með því að segja bara eitthvað. Við þurfum alltaf að fóðra dýrið, gefa því gögn að éta, annars bítur það okkur. 

En strax á eftir slær höfundur úr og það er þetta póstmóderníska einkenni þessarar bókar; staðfesting merkingarleysis í örvæntingarfullri leit að samhengi til að búa til einhverja merkingu fyrir augnablikið. Það er sjálfsagt að ræða þetta mál og líkast til mjög brýnt, spurningin er bara hvort einhver fær botn í merkingu sem hangir ekki saman við samhengi einhvers annars. En samt er það vonandi svo, eins og lokaorð höfundar í nokkuð bölsýnum niðurstöðum hljóða: „Verum sanngjarnari við hvert annað, við erum öll í þessu saman.“ 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Bergur Ebbi: Á milli spjaldanna

Spilling, Facebook og Bergur Ebbi