Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ekki aðstæður fyrir Albani og Makedóníumenn

17.12.2016 - 12:19
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Íslensk stjórnvöld þurfa að gera stjórnvöldum í Makedóníu og Albaníu grein fyrir því að hér á landi séu ekki aðstæður fyrir hælisumsóknir frá þessum löndum. Þetta segir innanríkisráðherra. Vinna sé hafin við það í ráðuneytinu að framlengja bráðbirgðaákvæði um að kæra til kærunefndar útlendingamála fresti ekki endursendingum þeirra sem koma frá löndum sem teljast örugg ríki, eins og Albaníu og Makedóníu.

Metfjöldi hælisleitenda kom hingað til lands í síðasta mánuði. Mest var fjölgunin meðal fólks frá Makedóníu og Albaníu. Þann 1. janúar taka ný útlendingalög gildi. Þar með fellur úr gildi bráðabirgðaákvæði í lögum um að kæra til kærunefndar útlendingamála fresti ekki endursendingum þeirra sem koma frá löndum sem teljast örugg ríki eins og einmitt Albaníu eða Makedóníu, og umsóknir hafa verið metnar tilhæfulausar. Þetta þýðir þá væntanlega að dvalartími hælisleitenda í málsmeðferð lengist. Makedóníumenn og Albanir dvelja þannig lengur hér á landi, áður en þeir eru sendir úr landi. Ólöf Nordal innanríkisráðherra segir hins vegar að stefnt sé að því að framlengja þetta ákvæði.

„Þetta ákvæði kom inn í október og var sett inn af því að við höfðum miklar áhyggjur af því að þessi málsmeðferð tæki svo langan tíma að þetta væri farið að koma niður á þeim sem við vildum raunverulega hjálpa. Og ég er eindregið þeirrar skoðunar að við þurfum að leita leiða til að framlengja þetta ákvæði um áramótin,“ segir Ólöf.

Er einhver vinna í gangi við þetta?

„Já. Við erum með mál í undirbúningi vegna þessa. Nú þurfum við bara að sjá hvernig staðan er á Alþingi, hvernig við getum komið þessu til leiðar, af því að við erum í óvenjulegri stöðu, bæði í ríkisstjórn og á þingi. En ég hygg að þetta sé mál sem menn hafa mikinn skilning á af því að við hljótum að vilja beina peningunum í þær áttir þar sem þeir nýtast best. Það er gagnvart því fólki sem kemur frá stríðshrjáðum og virkilega erfiðum löndum.“

Vaxandi málaflokkur

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, hafa öll lýst því yfir að íslensk stjórnvöld eigi að grípa til aðgerða vegna straums hælisleitenda frá Makedóníu og Albaníu til landsins. Ólöf er sammála þessu.

„Já, þetta eru sjónarmið sem ég hef mikinn skilning á. Þetta er fólk sem er að koma af efnahagslegum ástæðum, kemur hingað sem ferðamenn og sækir síðan um hæli. Þannig að við þurfum líka að gera þessum stjórnvöldum grein fyrir því að hér eru ekki aðstæður fyrir hælisumsóknir frá þessum löndum. Hér tökum við á móti eins og í öllum öðrum ríkjum fólki sem er að koma frá gríðarlega erfiðum aðstæðum, löndum þar sem stríðsástand ríkir, og við viljum að sjálfsögðu beina okkar fjármunum þangað líka.“

Það er mikið rætt um útlendingamál þessa dagana, metfjöldi hælisleitenda kom hingað í síðasta mánuði, fleiri en allt árið 2014, hvernig metur þú stöðuna í þessum málaflokki í heild sinni?

„Þið sjáið að það er að koma mikið frá þessum tilteknu ríkjum. Í fyrra vorum við mest að tala um Albaníu. Nú hefur Makedónía bæst við. Þannig að ég held að ef við náum utan um þennan hluta, þá strax erum við komin í betri stöðu. Þannig að það skiptir gríðarlegu máli. Svo vitum við að þessi málaflokkur er vaxandi. Hann hefur verið mjög áberandi í löndunum í kringum okkur. Og ég er sannfærð um og spái því að við munum þurfa að breyta þessum lögum um útlendingamál töluvert ört til þess að mæta þeim aðstæðum sem ríkja. Þannig að menn verða að vera sveigjanlegir og tilbúnir til þess að koma inn í þingið, gera breytingar og reyna að laga þannig að við séum ekki að beina kröftum okkar eða senda út skilaboð sem eru beinlínis misvísandi,“ segir Ólöf.