Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ekkert umhverfi ónæmt fyrir bakslagi

03.10.2019 - 22:58
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Það er mikilvægt að taka framförum í réttindabaráttu hinsegin fólks ekki sem gefnum, segir Victor Madrigal-Borloz sérfræðingur á vegum Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna. Hann segir ekkert umhverfi ónæmt fyrir bakslagi. Stundum þurfi ekki meira til en einar sveitarstjórnarkosningar.

Í starfi sínu fyrir Sameinuðu þjóðirnar rannsakar Victor Madrigal-Borloz stöðu hinsegin fólks í öllum 193 aðildarríkjum sambandsins. Hann segir mikilvægt að hunsa ekki fjandsamleg viðhorf. „Að mínu mati eru viss atriði sem hafa veirð byggð inn í þjóðfélög sem gera til dæmis foreldrum afar auðvelt að óttast hvaða líf bíður barna þeirra í þessum löndum. Mig langar að skilja betur hvar þessi ótti liggur því mín skoðun er sú að við þurfum að vinna að því að reyna að útrýma orsökum óttans frekar en að vísa honum á bug.“

Eina embættið sem lýtur að málefnum hinsegin fólks

Það segir kannski sína sögu að embætti hans er það eina á vegum Sameinuðu þjóðanna sem lýtur að málefnum hinsegin fólks. Og það var ekki átakalaust að koma því á fót. „Það þurfti geysimikið pólitískt bolmagn frá aðildarríkjum og hinu borgaralega samfélagi. Sem dæmi má nefna að þegar embættið var endurnýjað þurfti framlag rúmlega 1.300 borgaralegra samtaka frá 174 löndum,“ segir Madrigal-Borloz. 

Hann segir að þótt staða hinsegin fólks sé almennt góð á Íslandi sé mikilvægt að taka því ekki sem gefnu. Stundum þurfi ekki meira til en einar sveitarstjórnarkosningar. „Ég tel ekkert umhverfi ónæmt fyrir möguleikanum á bakslagi vegna þess að við erum að tala um fyrirbæri með djúpar rætur í sameiginlegu minni mannkyns kynslóðum saman. Við vitum ekki hvað þarf til þess að ástandið versni aftur.“

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV