Ekkert um að vottorð séu vegna uppreist æru

18.09.2017 - 18:54
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist/RÚV
Reglur í kringum umsókn um uppreist æru þyrftu að vera skýrari. Þetta segir Jón Þór Ólafsson, lektor í refsirétti við Lagadeild Háskóla Íslands. Hann segir hvergi koma fram að vottorð um góða hegðun þurfi að vera rituð sérstaklega í tengslum við umsókn um uppreist æru. Þá segir hann ekki á hreinu hvað nákvæmlega lýsingarorðið valinkunnur felur í sér.

Á heimasíðu dómsmálaráðuneytisins eru eftirfarandi leiðbeiningar um hvernig sækja eigi um uppreist æru.

  • Það þarf að sækja um til dómsmálaráðuneytisins.
  • Umsögnin þarf að vera skrifleg.
  • Koma þarf fram nafn, kennitala og heimilisfang.
  •  Vottorð um góða hegðun þarf að fylgja með frá tveimur valinkunnum einstaklingum, til dæmis frá vinnuveitanda.

Frekari leiðbeiningar er ekki að finna á heimasíðu ráðuneytisins að sögn upplýsingafulltrúa þess.  

Í ákvæðum almennra hegningarlaga um uppreist æru er þess krafist að umsækjandi færi sönnur á að hegðun hans hafi verið góð í fimm ár eftir að refsing hans var að fullu úttekin, fyrnd eða gefin upp. 

Sumir meðmælendur ósáttir og ekki upplýstir

Haraldur Þór Teitsson, framkvæmdastjóri rútufyrirtækisins Teits Jónassonar, sendi í gær frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagðist eingöngu hafa veitt barnaníðingnum Hjalta Sigurjóni Haukssyni meðmæli til að sækja um vinnu. Hann hafi aldrei ætlað að mæla með því að hann fengi uppreist æru. Dæmin eru fleiri. Hér er brot úr hádegisfréttum í dag.

„Ólafur Guðmundsson lýsir manninum sem vinnusömum og kátum í ódagsettu bréfi. Í samtali við Ólaf nú rétt fyrir fréttir minnist hann þess ekki að hafa skrifað bréfið til að maðurinn fengi uppreist æru, hann hefði ekki einu sinni vitað að maðurinn hefði sótt um slíkt.“ 

Bréf Ólafs um fyrrverandi lögreglumann sem braut kynferðislega gegn þremur stúlkum er ódagsett og því óljóst hvort það er gilt. Meðmælabréfið sem Haraldur skrifaði fyrir Hjalta var skrifað á síðasta ári,skömmu áður en hann sótti um uppreist æru. 

Ráðuneytið hefur veitt fjölmiðlum sem þess hafa óskað aðgang að gögnum í málum allra sem fengið hafa uppreist æru frá árinu 1995. Í frétt á vef ráðuneytisins segir að sumar umsagnirnar beri það ekki með sér að vera útgefnar sérstaklega vegna umsóknar um uppreist æru. Þetta er ekki útskýrt frekar og ekkert um hvort það sé óæskilegt. 

Ekkert um að stíla þurfi vottorð á ráðuneytið 

Jón Þór Ólafsson, lektor í refsirétti við lagadeild Háskóla Íslands, segir að það standi ekkert um það, hvorki í lögum eða verklagsreglum dómsmálaráðuneytisins, að sá sem skrifar vottorðið þurfi að stíla það á dómsmálaráðuneytið eða skrifa það í tengslum við uppreist æru. 

„Það kemur ekki fram í þessum reglum eða því sem kemur fram á heimasíðu dómsmálaráðuneytisins að þessi vottorð þurfi að rita sérstaklega vegna umsóknar um uppreist æru. Einhverjum kann að finnast það eðlilegt en það er ráðuneytisins að meta hvort þau vottorð eða bréf sem skilað er inn teljist fullnægjandi sönnun fyrir því að umsækjandi hafi hagað sér vel.“

Eðlilegt að setja skýrar reglur

Það er ráðuneytisins að meta hvort umsækjanda takist að færa sönnur á að hegðun hans hafi verið góð á tilteknu tímabili en hefði ráðuneytið þá átt að hringja í þá sem vottuðu góðmennsku umsækjenda? Jón Þór segir að eftir á að hyggja sé hægt að segja að það hefði verið eðlilegra ef ráðuneytið hefði haft samband við meðmælendur og kannað afstöðu þeirra frekar. 

„Það er náttúrulega hlutverk ráðuneytisins áður en lagt er til við forseta Íslands að einhverjum skuli veitt uppreist æru að kanna það hvort skilyrði laganna eru uppfyllt. Það væri, við getum sagt það núna, mun eðlilegra að setja skýrar reglur þannig að það sé ekki einhver óskýrleiki í þessum efnum.“ 

Honum fyndist til bóta ef sett yrðu skilyrði um að vottorð sem framvísað er með umsókn um uppreist æru séu sérstaklega samin fyrir það tilefni og stíluð á ráðuneytið. 

Ekki fölsun að framvísa meðmælendabréfi vegna vinnu

En er hægt að halda því fram að þeir sem skrifuðu meðmælabréf og vissu ekki að það yrði fylgigagn umsóknar um uppreist æru hafi verið blekktir. Jón Þór vill ekki leggja dóm á það. En felst í því einhver fölsun ef umsækjandi sendir meðmælabréf frá vinnuveitanda með umsókn um uppreist æru? „Það er ekki verið að breyta efni neins skjals, það er ekki skjalafals, svo mikið er víst.“

Óljóst hverjir teljast valinkunnir

En hvað um þessa valinkunnu menn? Hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að fá þann titil? „Það er ekki skýrt hvað felst í því. Þetta er væntanlega háð frjálsu mati stjórnvalda, hverjir teljast valinkunnir menn. Það má hugsa sér að það séu einstaklingar sem komnir eru yfir ákveðinn aldur, eðli máls samkvæmt, en það eru engar skýringar í lögunum, ekkert um þetta í hegningalögum og þetta er ekki skýrt frekar í þessum upplýsingum sem er að finna á heimasíðu ráðuneytisins.“

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi