Ekkert stórslys þótt kosið yrði aftur

06.12.2016 - 21:47
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að það yrði ekkert stórslys þótt boðað yrði til kosninga öðru sinni, takist ekki að mynda ríkisstjórn á þessu ári. Hann líkir stjórnarmyndunarviðræðum síðustu vikna við ferðalag í völundarhúsi.

Bjarni var gestur Kastljóss í kvöld þar sem aðalumræðuefnið var fjárlagafrumvarp næsta árs. Í lok viðtalsins var hann spurður hvort hann teldi líklegt að gengið yrði aftur til kosninga í vor.

Bjarni sagði að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna hefði viðrað myndun þjóðstjórnar fyrir nokkrum dögum. Þá hefði hann hent það á lofti að ef það gengi svona illa að mynda ríkisstjórn þá gæti hugsanlega orðið meirihluti fyrir því að boða til kosninga að nýju.

Síðan sagði Bjarni: „Það er engin katastrófa ef það er niðurstaðan. Ef það er niðurstaðan af átökum á vettvangi stjórnmálanna á þessu ári að það hafi einhvern veginn komið þannig upp úr kjörkössunum að það er ekki hægt að raða saman kubbunum þannig að það sé traust til staðar og sameiginleg sýn á verkefnin, nú þá er ekkert að því mín vegna að það sé kosið aftur. Það er lýðræðislegt, en ég held að það sé ekkert endilega líklegast í dag, og það sem mér hefur þótt verst í þessu öllu saman er að menn hafa komið með of miklar skilyrðingar í allar áttir og mér hefur stundum liðið eins og maður sé staddur í völundarhúsi; þessi leið er lokuð og þá fer maður þessa, og þá eru þessar dyr opnar og þessar lokaðar og þannig hefur maður þurft að þræða sig eftir þessum göngum, og þetta hefur komið mér á óvart. Ég skildi þetta kannski fyrstu vikuna eftir kosningar og hugsaði með mér, þetta er eðlilegt, þetta eru eftirköst kosninganna, átaka hér í þessum sal og víðar í kosningabaráttunni, en ég er mjög undrandi á því að þessi viðhorf skuli ekki breytast meira eftir því sem tíminn líður frá kosningum.“

 

johannhlidar's picture
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi