„Ekkert raunhæft verið gert í málinu“

20.02.2017 - 17:53
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tæpum þremur árum eftir að skýrsla ráðgjafafyrirtækisins Vatnaskila var kynnt sem sýndi að hætta gæti verið á því að flóð næði alla leið til Víkur eftir gos í Kötlu hefur ekkert raunhæft verið gert í málinu. Þetta kemur fram í minnisblaði Ásgeirs Magnússonar, sveitarstjóra Mýrdalshrepps, sem lagt var fram á fundi sveitastjórnarinnar í síðustu viku.

Í minnisblaðinu rekur Ásgeir hvernig hann hafi ítrekað reynt að reka á eftir sérfræðingum vegna málsins. 

Sveitarstjórinn segir að vegna eldgossins í Holuhrauni hafi athugun á málinu tafist. Þrýst hafi verið á að koma því aftur á hreyfingu og í mars 2016 var haldin fundur með fulltrúum almannavarnadeildar, Magnúsi Tuma Guðmundssyni og skýrsluhöfundum. „ Niðurstaða fundarins var sú að fara þyrfti á ný yfir skýrsluna og skoða hvort ástæða sé til frekari athugana áður en ráðist yrði í aðgerðir til að koma í veg fyrir að flóð næði til Víkur,“ segir í minnisblaðinu.

Sveitarstjórinn segist síðan hafa rekist á Björn Oddsson, jarðeðlisfræðing, fyrir tilviljun í desember en hann hafði málið á sinni könnu. Björn greindi sveitarstjóranum þá frá því að þetta væri ekki lengur á hans borði heldur hjá Ágústi Gunnari Gylfasyni, landfræðingi hjá Almannavörnum.

Sveitarstjórinn greinir síðan frá því að haldin hafi verið óbókaður fundur með skýrsluhöfundum frá Vatnaskilum, Magnúsi Tuma og fulltrúum Vegagerðarinnar. Niðurstaðan af þeim fundi hafi verið að óska eftir nýrri hermun á flóði en finna þyrfti fjármagn til að kosta hana. „Ekki þótti ástæða til að boða sveitarstjóra eða fulltrúa Mýrdalshrepps á þann fund,“ segir minnisblaðinu.

Sveitarstjórinn segir því að tæpum þremur árum eftir að fyrsta skýrslan var kynnt hafi ekkert raunhæft verið gert. „Enn er mikil skjálftavirkni í Kötlu og jarðvísindamenn lýsa því yfir hver á fætur öðrum að nú séu auknar líkur á gosi.“ 

Í minnisblaði sem sveitastjórn Mýrdalshrepps sendi fjárlaganefnd í október 2015 kom fram að veruleg hætta á væri á því að flóð eftir gos í Kötlu næði alla leið vestur til Víkur. „Sem betur fer virðist samt að vatnsdýpt í Vík yrði ekki meiri en 1 - 1,5 metrar og eins virðist ljóst [að] straumhraði vatnsins yrði lítill fyrst og fremst leðjudrulla,“ sagði í minnisblaðinu en hægt yrði að koma í veg fyrir þetta með tiltölulega lágum varnargarði við Uxafótarlæk.

Vísindaráð Almannavarna sagði í yfirlýsingu í byrjun árs að telja verði líkur á eldgosi í Kötlu meiri nú en venjulega. Skjálftavirkni hafi verið óvenju mikil frá því síðasta haust og þetta þurfi vöktunar og viðbragðsaðilar að hafa í huga.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi