Ekkert nýsmit í Kína síðasta sólarhringinn

19.03.2020 - 04:08
epa08295338 A handout illustration made available by the Centers for Disease Control and Prevention (CDC), shows 'ultrastructural morphology' of the coronaviruses, issued 15 March 2020. The novel coronavirus, named Severe Acute Respiratory Syndrome coronavirus 2 (SARS-CoV-2) was identified as the cause of an outbreak of respiratory illness first detected in Wuhan, China, in 2019. The illness caused by this virus has been named coronavirus disease 2019 (COVID-19).  EPA-EFE/CDC HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - CDC
Þau tímamót urðu í Kína í morgun að heilbrigðisyfirvöld tilkynntu að engin ný COVID-19 smit hefðu greinst þar í landi síðasta sólarhringinn, í fyrsta skipti síðan þessi skæða farsótt komst á skrið. Það fjölgaði hins vegar nokkuð í hópi þeirra sem komu smitaðir til Kína, erlendis frá.

Engin nýsmit greindust í Wuhan-borg, þar sem veiran sem veldur COVID-19 skaut upp kollinum í desember síðastliðnum, í fyrsta sinn frá því að yfirvöld tóku að birta tölur um fjölda smitaðra og látinna í janúar.

11 milljónir manna búa í Wuhan, höfuðborg Hubei-héraðs, og þeir, ásamt rúmlega 40 milljónum Hubei-búa til viðbótar hafa sætt ströngu farbanni, samkomubanni og fjölda annarra íþyngjandi ráðstafana af hálfu yfirvalda um margra vikna skeið.

Um 70.000 af 81.000 hafa náð sér

Átta dauðsföll urðu af völdum COVID-19 á meginlandi Kína í gær, öll í Hubei. Fjöldi látinna er því kominn í 3.245, samkvæmt kínverskum heilbrigðisyfirvöldum. Í allt hafa nær 81.000 smit verið staðfest í landinu frá upphafi, en í dag eru einungis 7.263 manns enn með þessa illvígu pest í Kína en rúmlega 70.000 hafa náð sér.

Aðeins er byrjað að slaka á ferða- og samkomubanni í Wuhan og Hubei, skólahald er ýmist byrjað víða eða í startholunum og verksmiðjur að komast í fullan gang á ný, en ýmsar takmarkanir eru þó enn í gildi. 

Vaxandi áhyggjur af innfluttu smiti

Áhyggjur heilbrigðisyfirvalda snúa nú einkum að innfluttu smiti. Hefur verið gripið til þess í Kína, eins og víðar, að skylda hvern þann sem kemur til landsins til að sæta 14 daga sóttkví. Samkvæmt upplýsingum heilbrigðisyfirvalda greindust 34 ferðalangar með COVID-19 í gær, og hafa aldrei verið fleiri. Samtals hafa 189 slík tilfelli greinst. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi