Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ekkert norrænt velferðarkerfi á Íslandi

Mynd: RÚV / RÚV
Harpa Njálsdóttir sem hefur rannsakað velferðarkerfið í áratugi segir að Íslendingar hafi horfið frá norræna velferðarmódelinu og eigi nú meira sameiginlegt með frjálslyndisstefnu og skilyrtri aðstoð.

„Stjórnmálamenn halda því fram að við séum að fylgja norræna velferðarmódelinu,“ segir Harpa í viðtali við Mannlega þáttinn. Það sem felist í því sé yfirgripsmikið kerfi sem nær til almannatrygginga, félagslegrar þjónustu, húsnæðis, tekjujöfnunar og margs annars. „Það byggir á altækum rétti, allir borgarar eigi til dæmis rétt á grunnlífeyri frá almannatryggingum.“

Hins vegar sé önnur stefna í velferðarkreðsum sem sé kennd við frjálslyndisstefnu og skilyrta velferð. „Aðstoðin á að vera í lágmarki miðað við skilyrta aðstoð, það eru háar skerðingar og lág frítekjumörk, meiri áhersla að fólk geti leitað til góðgerðastofnana eftir ölmusu,“ segir Harpa. Hún vill meina að íslenska velferðarkerfið eigi meira skylt með frjálslyndisstefnu en norrænni velferð og hafi í raun stefnt lengra og lengra í þá átt frá því í byrjun 10. áratugarins. „Þá eru almannatryggingar teknar til endurskoðunar og koma inn mjög harðar skerðingar, fólk hélt til dæmis nánast engu eftir ef öryrkjar vildu fara á vinnumarkaðinn.“ Frekar sé hægt að tala um að hér sé það sem hún kallar frjálslyndisstefnuvelferðarkerfi, kerfi tekjutenginga og skerðinga sem hafi klára misskiptingu í för með sér.

Staða kvenna slæm

„Við erum búin að skrá okkur úr norræna velferðarmódelinu,“ segir Harpa og bendir á að 70% aldraðra á Íslandi séu með tekjur undir framfærsluviðmiðum, samkvæmt tölum frá velferðarráðuneytinu. Af þeim sem búa einir og standa illa að vígi eru yfir 70% konur. Fjöldi kvenna sem unnið hafa á láglaunavinnumarkaði við umönnunarstörf hjá ríki og borg, t.d. á leikskólum, grunnskólum, elliheimilum, heimilisaðstoð hjá lífeyrisþegum hafi verið með lág laun alla starfsævina og ekki taki betra við þegar þær hætta á vinnumarkaði. Af lágum launum eru greiðslur í lífeyrissjóð lágar. Þeirra bíði því mjög lágar greiðslur úr lífeyrissjóði á efri árum.

Rætt var við Hörpu í Mannlega þættinum 7. maí en hlusta má á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.

ghansson's picture
Gunnar Hansson
dagskrárgerðarmaður