Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Ekkert nálgunarbann vegna mistaka lögreglu

21.08.2015 - 15:01
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Nálgunarbannskröfu Ásdísar Hrannar Viðarsdóttur gegn fyrrverandi sambýlismanni sínum sem hefur ofsótt hana um árabil var vísað frá dómi í Héraðsdómi Norðurlands eystra í dag. Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra virti ekki skýra tímafresti þegar hann fór fram á nálgunarbannið.

Þetta kemur fram í úrskurði héraðsdóms sem fréttastofa hefur undir höndum.

Ásdís lagði fram formlega kæru hjá lögreglu þann 6. júlí síðastliðinn vegna ítrekaðs ónæðis og sms skilaboða frá manninum. Samdægurs óskaði hún eftir því að hann yrði látinn sæta nálgunarbanni gagnvart henni. Lögreglustjóri tók ekki ákvörðun um að fara fram á nálgunarbann fyrr rúmlega mánuði síðar, þann 12. ágúst.

Í lögum kemur fram að lögreglustjóri skuli taka ákvörðun um nálgunarbann „svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en sólarhring eftir að beiðni hefur borist frá brotaþola þar um.“ Héraðsdómur segir að lögreglustjórinn hafi ekki virt þennan tímafrest og því hafi verið óhjákvæmilegt að vísa málinu frá dómi.

Steig fram í Kastljósi
Ásdís steig upphaflega fram í Kastljósi í maí í fyrra og sagði sögu sína. Þá hafði hún ítrekað kært hótanir og brot á nálgunarbanni sem sett var á fyrrverandi sambýlismann hennar. Ásdís hafði flúið frá borginni til Þórshafnar á Langanesi ásamt ungum börnum sínum af ótta við manninn. Á þeim tíma hafði lögregla fjórar alvarlegar líkamsárásir mannsins gegn Ásdísar til rannsóknar. Hann hafði verið úrskurðaður í nálgunarbann, en brotið það margoft.

Tveimur mánuðum síðar, í júlí árið 2014, var Erlendur dæmdur í átta mánaða fangelsi fyrir grófar hótanir og brot á nálgunarbanni. Hann var þó ekki settur í fangelsi, sökum þess að takmarkað rými var í fangelsum landsins og hann þurfti að bíða eftir því að hefja afplánun. Hann hélt áfram að ásækja Ásdísi og fjölskyldu hennar, en áfrýjaði dómnum til Hæstaréttar.

Maðurinn var handtekinn í október árið 2014 vegna hótana hans í garð dóttur Ásdísar, sem kærði hótanirnar. Eftir það hætti hann að áreita Ásdísi um skeið.

Galli í málsmeðferð
Þegar Hæstiréttur tók mál mannsins fyrir komst hann að þeirri niðurstöðu að mistök hefðu orðið við rekstur málsins. Því var málinu vísað frá dómi. Ákveðið var að ákæra aftur í málinu, en í þetta sinn var fleiri atriðum bætt inn í ákæruskjalið.

Maðurinn hlaut annan dóm í júní á þessu ári. Þar var hann meðal annars sakfelldur fyrir líkamsárás, um átta hundruð brot á nálgunarbanni, brot gegn barnaverndarlögum og að hafa brotið gegn blygðunarsemi Ásdísar. Allt í allt hlaut hann fimmtán mánaða dóm, þar af voru þrír mánuðir óskilorðsbundnir. Hann áfrýjaði dómnum í byrjun júlí og byrjaði strax í kjölfarið að ofsækja Ásdísi á ný eftir árspásu. Fréttablaðið greindi frá því að hann hefði sent henni um tvö hundruð smáskilaboð í júlí síðastliðnum.

 

birkirbi's picture
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV