Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Ekkert minnst á Vigdísi

01.08.2015 - 18:19
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Frásagnir um konur á grunnsýningu Þjóðminjasafnsins eru gloppóttar og ekkert er þar minnst á Vigdísi Finnbogadóttur. Þetta kemur fram í úttekt sem Þjóðminjasafnið lét gera í tilefni af því að 100 ár eru liðin frá því konur fengu kosningarétt á Íslandi.

Þjóðminjasafnið fékk Rannsóknarsetur í safnafræðum til að gera úttekt á grunnsýningu safnsins „Þjóð verður til“ frá kynjafræðilegu sjónarhorni. Arndís Bergsdóttir, doktorsnemi í sagnfræði, var fengin til verksins. Skoðuð voru sýningasvæði, munir, afstaða til þeirra, lýsing, textar og margt fleira. Einnig voru rýnihópar fengnir til að skoða sýninguna. Arndís segir að margt sé vel gert.

„Engu að síður er frásögnin mjög gloppótt. Hún virðist vera að mjög mörgu leiti að konur eru dregnar fram hér og þar og þeirra getið, þeirra hlutverks í menningu og sögu þjóðarinnar. Það er talað um það, hins vegar er það frekar strjált og virðist vera næstum því tilviljunarkennt hvernig það er gert,“ segir Arndís.

Fjölmörg dæmi um þetta eru tekin í skýrslunni en vert er að nefna hlut Vigdísar Finnbogadóttur.

„Það var sérstakega tekið til þess í rýnihópunum að litið sem ekkert var fjallað um Vigdísi Finnbogadóttur og þetta þótti ákaflega merkilegt þar sem hún er náttúrlega fyrsti lýðræðislega kjörinn kvenforseti í heimi. Hún ættleiðir barn ein og er mikill skörungur og stendur mjög framarlega á margan hátt, en hins vegar er lítið sem ekkert fjallað um hana á safninu.“

„Vigdís náinn og góður samstarfsmaður Þjóðminjasafnsins“
„Þetta er alltaf spurning um framsetningu. Grunnsýningin er náttúrlega ekki saga Íslands frá a til ö heldur ákveðin sýn á sögu landsins og þá er náttúrlega tekið mið af þeim safnkosti sem Þjóðminjasafnið varðveitir,“ segir Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður.

Grunnsýning Þjóðminjasafnsins er 10 ára gömul. Margrét segir það mikilvægt að sýningum af þessu tagi sé haldið við og því hafi safnið viljað vita hvort hún stæðist tímans tönn. Niðurstöðurnar komu ekki á óvart.

„En auðvitað kemur það okkur ekki á óvart að fá ákveðna gagnrýni þegar sýningin er skoðuð nú 10 árum eftir að hún er opnuð og við fögnum því að fá svona góðar ábendingar og það mun gagnast okkur mjög vel við endurskoðun á ýmsum þáttum sýningarinnar. Svo er rétt að taka fram að sérsýningar safnsins eru alltaf hugsaðar þannig að þær dýpka ákveðna þætti grunnsýningarinnar.“

Margrét segir að ekki sé fjallað um einstaka manneskju í þeim hluta sýningarinnar þar sem fjallað er um 20. öldina.

„En að sjálfsögðu höfum við fjallað um Vigdísi Finnbogadóttur og hennar mikilvæga þátt í okkar sögu í ýmsum viðburðum og sýningum enda er hún náinn og góður samstarfsmaður Þjóðminjasafnsins,“ segir Margrét.

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV
Guðmundur Björn Þorbjörnsson
dagskrárgerðarmaður