Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ekkert lát á frægð Lagarfljótsormsins

12.09.2014 - 21:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Erlendar sjónvarpsstöðvar sækjast enn eftir myndbandi sem sumir trúa að hafi náðst af Lagarfljótsorminum fyrir tveimur árum. Sveitarfélagið Fljótsdalshérað þarf að efna gamalt loforð um verðlaunafé fyrir myndir af skrímslinu.

Sagnir af orminum í Lagarfljóti eru til frá 14. öld og fjölmargir segjast hafa séð orminn. Það var svo kaldan febrúarmorgun árið 2012 sem Hjörtur Kjerúlf sér ókennilegan hlut sem virtist synda í Jökulsá í Fljótsdal sem liggur inn í fljótið. Síðan þá hefur hlaðið á Hrafnkelsstöðum verið vinsælt hjá erlendu fjölmiðlafólki. Mest frá Bandaríkjunum en einnig frá Bretlandi, Frakklandi, Rússlandi og Kanada. 

„Japanir hafa mikinn áhuga. Þeir eru nýbúnir að kaupa sýningarrétt að myndefninu til að sýna í einhverjum þætti. Það kom hérna spænsk stúlka. Það sem vakti fyrir henni var að eiga mynd af myndavélinni sem ég tók mynd af orminum á,“ segir Hjörtur.

Fáir vita að um mánuði síðar sá hann orminn aftur og myndaði í annað sinn. Sveitarfélagið stofnaði nefnd til að meta myndirnar og meirihlutinn taldi þær sýna orminn. Sigrún Blöndal, forseti bæjarstjórnar og fulltrúi í sannleiksnefnd, segir starfið hafa verið vísindalegt.

„Já að hluta til því að við fórum og skoðuðum aðstæður og við skoðuðum þau sönnunargögn sem liggja fyrir og við ræddum við lifandi vitni, Hjört Kjerúlf meðal annars, og rifjuðum upp ýmsar frásagnir. Þetta var að því leytinu til vísindalegt að menn studdust við gögn,“ segir Sigrún.

Hún segir að sveitarfélagið undirbúi stofnun Ormsstofu og Hjörtur fái hálfa milljón í verðlaun sem lofað var fyrir 17 árum.

„Hugsanlega gef ég þetta til einhvers uppbyggilegs málefnis eða málefna. Omurinn var vissulega gleymdur en nú hefur hann fundist aftur og hann vekur verulega athygli bara um allan heim,“ segir Hjörtur.

Horfa á fréttatíma