Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Ekkert gyðingahatur í sálmunum

24.02.2012 - 18:38
Mynd með færslu
 Mynd:
Margrét Eggertsdóttir, rannsóknarprófessor við Sofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, segir ómaklega vegið að Hallgrími Péturssyni þegar því er haldið fram að Passíusálmar hans séu gegnsýrðir af gyðingahatri.

Stofnun Simon Wiesenthals í Los Angeles hefur skrifað Páli Magnússyni útvarpsstjóra bréf þar sem lestri Passíusálmanna í útvarpi er mótmælt. Í sálmunum megi finna 50 neikvæðar vísanir um gyðinga. Margrét var gestur í síðdegisútvarpinu. Hún segir að þessar fréttir hafi komið sér verulega á óvart.

„Hallgrímur er að segja þessa sögu á sinn hátt og mér finnst þetta mjög ómaklegt vegna þess að hann túlkar hana einmitt þannig að hann setur sig í spor margra sem þarna koma við sögu,“ segir Margrét. Skáldið setji sig meðal annars í spor gyðinga.

„Þannig að það er alls ekki í anda Hallgríms að fara að skella skuldinni á einhvern hóp eins og gyðinga.“

Útvarpsstjóri hefur ekki tekið afstöðu til erindisins enda hefur honum ekki enn borist bréfið. Lestur passíusálmanna á Rás eitt hófst 6. febrúar.