Ekkert gert þrátt fyrir ítrekaðar yfirlýsingar

06.03.2017 - 16:55
Mynd með færslu
 Mynd: Tryggvi Aðalbjörnsson - RÚV
Landsdómur hefur lengi verið mönnum þyrnir í augum og einstaka þingmenn hafa áratugum saman lagt til að lög um ráðherraábyrgð og Landsdóm verði endurskoðuð. Þrátt fyrir það hefur ekkert komið út úr því. Þingsályktunartillögur um breytingar hafa ýmist dagað uppi í þinginu eða ekkert hefur verið gert með efni tillagnanna eftir samþykkt þeirra.

Landsdómur komst á ný í umræðuna í dag vegna viðtals við Guðna Th. Jóhannesson forseta í Lögréttu. Þar segir forseti að það hafi verið feigðarflan eftir hrun að nýta forn og úrelt ákvæði í stjórnarskrá um Landsdóm þegar Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra var ákærður vegna starfa hans fyrir hrun. Guðni sagði jafnframt að Landsdómsmálið hafi frekar sundrað þjóðinni en sameinað og það á versta tíma.

Brynjar Níelsson, formaður stjórnskipunar og eftirlitsnefndar Alþingis, lýsti í hádegisfréttum RÚV í dag þeim vilja sínum að þingið óski eftir tillögum að breyttu fyrirkomulagi frá hópi sérfræðinga. „Ég held að menn séu almennt sammála um það að þetta hafi nú ekki tekist vel síðast og full ástæða til að fara yfir þessi mál með ítarlegum hætti.“

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra flytur fyrstu stefnuræðu sína
 Mynd: RÚV
Forsætisráðherra sagði fyrir fjórum árum að breyta þyrfti lögunum.

Mikilvæg réttarbót sem má ekki bíða

Flokksbróðir Brynjars og formaður, Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, var afdráttarlausari þegar hann brást við ályktun Evrópuráðsþingsins sem fordæmdi réttarhöldin yfir Geir H. Haarde. Bjarni sagði að þetta tilefni til að taka Landsdómslögin til endurskoðunar. 

Mér finnst það svo mikilvæg réttarbót hjá okkur að það megi ekki bíða. Mér fannst ekki rétt að þeir sem vildu beita lögunum ættu forgöngu um að taka þau til endurskoðunar, þ.e. fyrrverandi ríkisstjórn, en mér finnst rétt að setja strax af stað vinnu við að breyta lögunum.

Þetta sagði Bjarni 29. júní 2013, fyrir tæpum fjórum árum síðan. Fréttastofa óskaði síðdegis upplýsinga frá innanríkisráðuneyti og forsætisráðuneyti um hvort einhver slík vinna hefði farið fram. Svör höfðu ekki borist þegar fréttaskýringin var birt. 

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv
Landsdómur hefur ítrekað verið ræddur í sölum Alþingis.

Margar tillögur en ekkert gerist

Bjarni og Brynjar eru langt í frá fyrstu þingmennirnir til að lýsa þessari skoðun. Dæmi er um slíkt áratugi aftur í tímann.

Árið 1994 lagði Svavar Gestsson, þáverandi þingmaður Alþýðubandalagsins og fyrrverandi menntamálaráðherra, fram þingsályktunartillögu um endurskoðun laga um ráðherraábyrgð. Hann lagði ekki til neina forskrift fyrir nefndina en gerði ráð fyrir að nefndin færi yfir umræður um tengd mál á Alþingi og hefði dönsku lögin um ráðherraábyrgð til hliðsjónar. Svavar lagði þingsályktunartillöguna fram eftir að miklar umræður voru um hneykslismál í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Alþýðuflokksins sem sat að völdum árin 1991 til 1995. Hann tiltók sérstaklega mál Guðmundar Árna Stefánssonar, sem var heilbrigðisráðherra og félagsmálaráðherra í tíð þeirrar stjórnar og sat undir ámæli fyrir embættisverk sín. Því lauk með afsögn Guðmundar Árna.

Í atkvæðagreiðslu á miðnætti 25. febrúar 1995 var samþykkt að vísa tillögu Svavars til ríkisstjórnar. Það var skömmu fyrir þinglok og kosningar þegar mörg mál voru afgreidd á skömmum tíma.

Þetta var baráttumál mitt í mörg ár að skýra ráðherraábyrgðarmálin og leggja niður Landsdóm

segir Svavar í samtali við fréttastofu. Hann minnist þess ekki að ríkisstjórnin hafi gert neitt með málið eftir að því var vísað til hennar. Lögin eru í það minnsta óbreytt.

„Ég man aldrei eftir að það hafi neinn nema við nefnt þann möguleika að fella niður Landsdóm,“ segir Svavar um baráttu sína á þessum árum. Við sem hann nefnir eru þingmenn Alþýðubandalagsins.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Jóhanna Sigurðardóttir flutti tillögur um endurskoðun laganna þegar hún var þingmaður.

Þriðjungur þingmanna skrifa undir tillögu

Síðar áttu fleiri eftir að leggja til upptöku laga um Landsdóm. Upp úr aldamótum lagði Jóhanna Sigurðardóttir ítrekað fram þingsályktunartillögur um heildarendurskoðun á lögum um Landsdóm. Engin þeirra náði lengra en til fyrri umræðu. Tvær umræður þarf áður en hægt er að kjósa um það hvort tillagan verði samþykkt sem ályktun Alþingis.

Í þingsályktunartillögum Jóhönnu var bæði lagt til að einfalda framkvæmd laga um ráðherraábyrgð og kanna hvort tryggja ætti tilteknu hlutfalli þingmanna rétt til að höfða mál gegn ráðherra. Þar var líka lagt til að skoðaðir yrðu kostir þess og gallar að leggja Landsdóm niður. Meðflutningsmönnum fjölgaði þegar á leið. Þegar Jóhanna lagði fram þingsályktunartillögu þessa efnis í síðasta skipti skrifuðu 20 þingmenn, nærri þriðjungur þingmanna undir tillöguna.

Jóhanna var þingmaður Samfylkingarinnar þegar hún lagði tillögurnar fram og síðar forsætisráðherra þegar Landsdómur var kallaður saman. Hún greiddi atkvæði gegn ákæru á hendur Geir H. Haarde þegar Alþingi fjallaði um hugsanlegar ákærur vegna hrunsins. Hún greiddi líka atkvæði með frávísun tillögu um afturköllun ákærunnar.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Allir 63 þingmennirnir greiddu atkvæði með tillögu sem kvað meðal annars á um endurskoðun laga um ráðherraábyrgð og landsdóm.

Samstaða um endurskoðun

28. september 2010 samþykktu allir 63 þingmenn landsins þingsályktun um viðbrögð Alþingis við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem komið hafði út fyrr á árinu. Þar á meðal var stefnt að því að endurskoða löggjöf og eftir atvikum undirbúa löggjöf á nokkrum sviðum. Þar á meðal voru lög um ráðherraábyrgð og lög um Landsdóm.

Þingið hefur ekki gert meira í þessum efnum þrátt fyrir samþykktina. Stjórnlagaráð gerði það að tillögu sinni í frumvarpi að nýrri stjórnarskrá að almennir dómstólar tækju að sér að dæma um ábyrgð ráðherra en ekki Landsdómur. Það frumvarp var sent til Alþingis en þrátt fyrir allnokkra vinnu í þinginu var ekkert gert með þennan þátt frumvarpsins.

Þetta mátti lesa í skýringum með frumvarpi stjórnlagaráðs:

Í tillögum stjórnlaganefndar eru ákvæði um þetta efni gerð nokkuð ítarlegri. Í greininni, eins og hún stendur í frumvarpi þessu, er meðferð ráðherraábyrgðarmála skilgreind enn frekar, allt frá könnun stjórnsýslu- og eftirlitsnefndar á meintum embættisbrotum til ákvörðunar um rannsókn, til skipunar saksóknara og eftir atvikum útgáfu ákæru og sóknar máls fyrir dómstólum. Því er lögð til breyting á því fyrirkomulagi að Alþingi fari eitt með ákæruvald í þessum málum sem stjórnlaganefnd hreyfði ekki við. Þá er meðferð ráðherraábyrgðarmála færð frá landsdómi til almennra dómstóla. 

Ekkert varð þó úr gjörðum frekar en fyrri daginn.

Ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens.
Ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens var við völd þegar ákveðið var að reisa Blönduvirkjun. Mynd: Stjórnarráðið
Gunnar Thoroddsen var forsætisráðherra um þriggja ára skeið. Hann lagði fram þingmannsfrumvarp um nýja stjórnarskrá.

Engin Landsdómur í óskastjórnarskrá Gunnars Thoroddsen

Dæmin um efasemdir stjórnmálamanna með ágæti Landsdóms eru sum hver margra áratuga gömul.

Stjórnarskrárnefndir hafa starfað á vegum Alþingis stóran hluta lýðveldistímans. Þá hefur stundum komið til umræðu að afnema Landsdóm. Það gerði meðal annars Gunnar Thoroddsen í frumvarpi sínu nýrri stjórnarskrá á vordögum 1983. Frumvarpið var afleiðing þess að engin samstaða hafði náðst í stjórnarskrárnefnd sem starfað hafði á grundvelli þingsályktunartillögu Alþingis frá 1972. Þó Gunnar legði frumvarpið fram var fyrirfram vitað að það yrði ekki að lögum.

Sá hluti stjórnarskrárfrumvarps Gunnars um að leggja Landsdóm niður var í raun samhljóða hugmyndum Sjálfstæðismanna frá vetrinum 1952-1953, áratug áður en lögin um Landsdóm voru sett, um að Hæstiréttur dæmdi í ráðherraábyrgðarmálum. Fram að þeirri lagasetningu var kveðið á um Landsdóm í stjórnarskrá en engin almenn lög til um hann.

Þremur árum eftir að Gunnar lagði frumvarp sitt fram lagði Ólafur Þ. Þórðarson, þingmaður Framsóknarflokksins, fram stjórnarskrárfrumvarp. Þar var meðal annars gert ráð fyrir að Hæstiréttur dæmdi í ráðherraábyrgðarmálum en Landsdóm var hvergi að finna í frumvarpinu.

Rétt að endurskoða reglurnar

Stjórnarskrárnefnd skipuð fulltrúum flokkanna á þingi sem starfaði 2003 til 2007 komst að þeirri niðurstöðu að rétt væri að endurskoða reglur um ráðherraábyrgð og skipan Landsdóms. Ekkert varð þó af því. Í skýrslu nefndarinnar voru eftirfarandi orð sem seinna áttu eftir að enduróma þegar kom að ákæru á hendur ráðherrum sem sátu við völd árin fyrir hrun:

Það er umhugsunarefni hvort þetta fyrirkomulag varðandi refsiábyrgð ráðherra vegna embættisbrota hæfir breyttu lagaumhverfi frá því að reglurnar voru fyrst settar og hvort rök séu fyrir því að laga þær að reglum almenna dómskerfisins.

Frá Landsdómi 2012, málshöfðun gegn Geir Hilmari Haarde fyrrverandi forsætisráherra fyrir brot á lögum um ráðherraábyrgð.
 Mynd: Tryggvi Aðalbjörnsson - RÚV
Landsdómur kom saman, í fyrsta sinn, til að rétta í máli Geirs H. Haarde.

Fimm ár frá réttarhöldunum

Um þetta leiti eru fimm ár síðan réttað var yfir Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, í Landsdómi. Það er eina skiptið sem Landsdómur hefur verið kallaður saman. Réttarhöldin hófust 5. mars 2012 og aðalmeðferð stóð yfir í tvær vikur. Flestir helstu stjórnmálamenn og stjórnendur í bankakerfinu á árunum fyrir hrun voru kallaðir fyrir dóminn til að gefa skýrslu. Það sama átti við um framámenn í Seðlabankanum, ráðuneytum og eftirlitsstofnunum.

Lessalurinn í Þjóðmenningarhúsi var þétt setinn framan af réttarhöldunum, reyndar svo mjög að biðröð myndaðist fyrir utan salinn. Þegar á leið fækkaði í áhorfendahópnum en fjölgaði þó þegar nokkur af þekktari vitnum mættu til að gefa skýrslu.

Tveimur umfangsmestu ákæruliðunum gegn Geir hafði verið vísað frá dómi áður en aðalmeðferð hófst. Hann var sýknaður af þremur en sakfelldur fyrir einn, sem sneri að fundahöldum. Honum var ekki gerð refsing. Heildarkostnaður við réttarhöldin nam 118 milljónum króna.

Tekist á um ákæruna

Réttarhöldin yfir Geir voru mjög umdeild. Rannsóknarnefnd Alþingis taldi þrjá ráðherra hafa brugðist skyldum sínum. Það voru auk Geirs Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra og Árni Mathiesen fjármálaráðherra. Þingnefnd sem vann úr skýrslu rannsóknarnefndar lagði til að ráðherrarnir þrír og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra yrðu sótt til saka. Atkvæði á Alþingi féllu þannig að Alþingi samþykkti með þriggja atkvæða mun að ákæra Geir, í október 2010. Tillögur um að ákæra aðra voru felldar. Allir Sjálfstæðismenn greiddu atkvæði gegn öllum ákærum, allir þingmenn Vinstri-grænna með öllum ákærum. Þingmenn Samfylkingarinnar greiddu atkvæði með margvíslegum hætti og var legið á hálsi að hafa þannig komið sínu fólki frá því að vera dregið til ábyrgðar fyrir Landsdómi.

Í byrjun árs 2012 fluttu Sjálfstæðismenn tillögu um að afturkalla ákæruna á hendur Geir. Þeir vísuðu til þess að margir þingmenn hefðu skipt um skoðun þegar ljóst var að hann yrði einn ákærður. Því væri í raun ekki meirihluti fyrir ákærunni. Á endanum var þeirri tillögu vísað frá með sex atkvæða mun.

Frá Landsdómi 2012, málshöfðun gegn Geir Hilmari Haarde fyrrverandi forsætisráherra fyrir brot á lögum um ráðherraábyrgð.
 Mynd: Tryggvi Aðalbjörnsson - RÚV
Fyrrverandi ráðherrar, þingmenn, seðlabankastjórar, stjórnendur einkabankanna og aðrir gáfu skýrslu fyrir Landsdómi.
Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi