Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ekkert fundað í dag - verkfallið heldur áfram

Hönd í bláum hanska þvær krómaða málmplötu.
 Mynd: Gesine Kuhlmann - RGBStock
Fundi samninganefnda sveitarfélaga og Eflingar, sem átti að fara fram í dag, var frestað. Þetta var gert að beiðni samninganefndar sveitarfélaganna, að sögn Ingu Rúnar Ólafsdóttur, formanns hennar. Hún segir að nefndin hafi þurft meiri tíma til að vinna sína heimavinnu. Verkfall félagsmanna í Eflingu, sem hófst á mánudag, heldur því áfram.

Næsti fundur í kjaradeilunni verður á mánudag, að því er fram kemur á vef Ríkissáttasemjara. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir bæði samninganefndin og félagsmenn séu orðin óþreyjufull eftir að fundur verði haldinn og kjaradeilan til lykta leidd. „Við bíðum og leggjum áherslu á að fundur verði haldinn sem allra fyrst. Að okkar mati er ótækt að fara inn í helgina án þess að halda fund.“ Þau sýni því skilning að fólk þurfi meiri tíma en leggi áherslu á að viðræðunum verði haldið áfram á morgun. 

Verkfallið nær til rúmlega 270 starfsmanna. Það hefur valdið röskun á skólastarfi og hefur Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi, Salaskóla, Álfhólsskóla og Kársnesskóla í Kópavogi verið lokað því starfsfólk sem sér um ræstingar er í verkfalli.