Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ekkert flogið til og frá Grænlandi í tvær vikur

18.03.2020 - 06:59
Mynd með færslu
Allar vélar Air Greenland verða kyrrsettar næstu tvær vikurnar Mynd: C. Dam - KNR
Allt flug leggst af á Grænlandi frá og með miðnætti á föstudag. Á þetta jafnt við um innanlandsflug sem millilandaflug. Eina undantekningin er sjúkraflug. Í frétt á vef grænlenska ríkisútvarpsins kemur fram að allt flug til og frá landinu muni liggja niðri í tvær vikur, og að ekki verði heldur unnt að fljúga milli byggðarlaga. Er þetta gert til að draga úr útbreiðslu kórónaveirunnar sem veldur COVID-19.

Haft er eftir Kim Kielsen, formanni grænlensku heimastjórnarinnar, að þverpólitísk eining ríki um þessar ráðstafanir á grænlenska þinginu. „Með þessum hætti getum við tryggt að veiran dreifi sér ekki, Þetta verður högg fyrir efnahagslífið, en það er mikilvægt að við förum að öllu með fyllstu gát, og um það eru formenn allra flokka sammála,“ segir Kielsen. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV