Ekkert Brexit án samþykkis þingsins

24.01.2017 - 09:51
Erlent · Brexit · Evrópa
Mynd með færslu
Hæstiréttur Bretlands. Mynd: ASSOCIATED PRESS - Supreme Court
Bresku ríkisstjórninni ber að leggja áætlun sína um úrsögn úr Evrópusambandinu fyrir þing landsins. Stjórnvöld geta ekki keyrt málið áfram án þess að þingið hafi fjallað um málið og samþykkt það fyrir sitt leyti. Þessi er niðurstaða hæstaréttar Bretlands. Dómurinn var kynntur í dag.

Theresa May forsætisráðherra hafði ætlað að keyra hið svonefnda Brexit áfram án þess að bera áætlunina undir þingið. Dómur hæstaréttar er því áfall fyrir hana og stjórn landsins.

Hæstiréttur klofnaði í afstöðu sinni. Átta dómarar voru þeirrar skoðunar að útgangan hæfist ekki án aðkomu þingsins. Þrír voru á móti. Í dómi meirihlutans segir að breska ríkisstjórnin geti ekki virkjað fimmtugustu grein  Lissabonsáttmálans, sem kveður á um úrsögn, heldur sé það í höndum þingsins.

 

Þá kemur fram í dómi hæstaréttar að breska þingið þarf ekki að ráðfæra sig við þingin í Skotlandi, Norður-Írlandi og Wales um útgönguna. Hefði dómurinn fallið á hinn veginn má búast við málið hefði þæfst verulega. Meirihluti Skota var til dæmis á móti því að ganga úr Evrópusambandinu.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi