Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ekkert athugavert við kaup Ramma á Sigurbirni

04.11.2019 - 11:59
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Samkeppniseftirlitið sér ekkert athugavert við kaup Ramma á öllu hlutafé sjávarútvegsfyrirtækisins Sigurbjarnar ehf. í Grímsey. Bæjarfulltrúar á Akureyri funda með hverri fjölskyldu í eynni fyrir sig, um stöðuna sem upp er komin.

Kaup Ramma hf. á Siglufirði á Sigurbirni ehf. í Grímsey leiða hvorki til þess að markaðsráðandi staða verði til eða styrkist né til þess að samkeppni verði raskað. Það sé því ekki ástæða til þess að aðhafast vegna samrunans, með íhlutun í formi ógildingar eða með skilyrðum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá samkeppniseftirlitinu. Í byrjun október var sagt frá sölunni sem var með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Bæjarfulltrúar funda með íbúum

Með sölunni hverfa um þúsund þorskígildistonn eða um helmingur þeirra aflaheimilda sem útgerðarfyrirtæki í Grímsey ráða yfir, frá eyjunni sem byggir allt sitt á fiskveiðum. Bæjarfulltrúar á Akureyri ræða nú við íbúa og ákveða næstu skref. Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri segir fundina ganga vel, aðeins eigi eftir að funda með einni fjölskyldu, síðan verði haldinn sameiginlegur íbúafundur í Grímsey.

Óska eftir að vinnsluskylda verði afnumin

Hverfisráð Grímseyjar hefur óskað eftir því við Akureyrarbæ að vinnsluskylda verði afnumin við útdeilingu almenna byggðakvótans og þess í stað sett á löndunarskylda í Grímsey. Jóhannes Henningsson formaður hverfisráðs segir þetta ósk útgerðanna, það séu breyttir tímar, fiskur fari mikið á markað eða sé unninn í öðru formi. Með vinnsluskyldu gagnist almenni byggðakvótinn ekki öllum í eynni. 

Um 15 manns í eynni yfir vetrartímann

Grímseyingar hafa tekið þátt í verkefninu brothættum byggðum frá sumrinu 2015 en ekki hefur tekist að snúa íbúaþróun í eyjunni við. Í haust skoruðu eyjaskeggjar á Byggðastofnun og Akureyrarbæ að framlengja verkefnið. Jóhannes segir að margir góðir hlutir hafi gerst með tilkomu brothættra byggða. Fjarskiptasamband og samgöngumál hafi til dæmis verið bætt til muna og allir hafi unnið að því að heilum hug að bæta stöðuna í eynni, samt fari fólki áfram fækkandi. Skráður íbúafjöldi í Grímsey er um 60 en um 15 manns eru með aðsetur þar yfir vetrartímann. Ekkert skólahald er þar í fyrsta skipti í vetur en þar hefur verið skóli í einhverri mynd óslitið frá 1904.