Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Ekkert annað lögregluembætti keypt ráðgjöf

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu er eina lögregluembætti landsins sem hefur keypt utanaðkomandi fjölmiðlaráðgjöf á undanförnum árum. Upphæðin nam 830 þúsund krónum og var ráðgjöfin öll keypt eftir að nýr lögreglustjóri tók við síðastliðið haust.

Ekkert lögreglustjóraembætti á landinu hefur keypt utanaðkomandi fjölmiðlaráðgjöf á undanförnum árum, að undanskildum lögreglustjóranum í Reykjavík. Það var gert eftir að Sigríður Björk Guðjónsdóttir tók við embætti í haust og sneri ráðgjöfin að mestu leyti að samskiptum hennar við fjölmiðla vegna lekamálsins.

Fréttastofa hafði samband við öll lögreglustjóraembættin níu og fékk staðfest að ekkert þeirra hefði greitt fyrir utanaðkomandi fjölmiðlaráðgjöf undanfarin ár. Fram kom í fréttum RÚV í gær að Lögreglustjórinn á Höfuðborgarsvæðinu hefur síðasta hálfa ár greitt almannatengslafyrirtækinu KOM um 830 þúsund krónur í ráðgjöf um hvernig samskiptum við fjölmiðla eigi að vera háttað vegna lekamálsins og skýrslu embættisins um búsáhaldabyltinguna. Slík kaup á þjónustu höfðu aldrei áður verið gerð hjá embættinu, samkvæmt heimildum fréttastofu, en það var ekki fyrr en eftir að Sigríður Björk Guðjónsdóttir tók við fyrsta september síðastliðinn sem þetta var ákveðið. Samkvæmt heimildum fréttastofu sneri ráðgjöfin til lögreglustjórans að mestu leyti að því hvernig fjölmiðlasamskiptum hennar ætti að vera háttað í tengslum við lekamálið.

Sigríður Björk hefur verið mikið í umræðunni vegna tengsla sinna við málið. Í tíð sinni sem lögreglustjóri á Suðurnesjum sendi hún Gísla Frey Valdórssyni, þáverandi aðstoðarmanni innanríkisráðherra, greinargerð um rannsókn embættisins á Suðurnesjum á nígeríska hælisleitandanum Tony Omos. Persónuvernd tók málið upp og komst að þeirri niðurstöðu að lögreglustjórinn hefði brotið gegn lögum um persónuvernd með sendingunni.

Þá kom einnig fram í fréttum í gær að innanríkisráðuneytið greiddi ráðgjafafyrirtækinu Argusi tæpa tvær og hálfa milljón í fjölmiðlaráðgjöf vegna sama máls í fyrra og lögmannsstofunni LEX rúma milljón.

Fréttastofa hefur óskað eftir sundurliðun á reikningi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna greiðslnanna til KOM og greiðslum innanríkisráðuneytisins til Argusar, en við því hefur ekki verið orðið.

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
dagskrárgerðarmaður