Eitur að geta séð hversu margir hlusta

Mynd: RÚV / RÚV

Eitur að geta séð hversu margir hlusta

30.08.2019 - 12:49
Tónlistarmaðurinn Huginn ætti að vera orðinn flestum kunnugur enda hefur hann gefið út hvern smellinn á fætur öðrum frá því að fyrsta lag hans kom úr fyrsta lag fyrir rúmum tveimur árum.

Þegar Huginn var yngri lærði hann á öll hljóðfæri sem hann gat, pabbi hans var í hljómsveitum og systir hans mikið að syngja. „Mig langaði alltaf að gera tónlist en þorði því ekki.“ Hann lét þó loks slag standa fyrir um tveimur árum þegar hann gaf út lagið  „Gefðu mér einn.“ Í fyrra gaf hann svo út fyrstu plötuna, Eini strákur (Vol. 1).

Huginn kemur inn í tónlistarsenuna mitt í rappsprengjunni og hefur því oft verið titlaður rappari. Hann segist hins vegar ekki vera rappari enda tónlist hans meira í áttina að R&B-poppi. 

„Ef þú ert ungur að gera tónlist í dag þá ertu bara stimplaður rappari, en ég er ekki rappari.“ 

Huginn segist varla hafa sofið eftir að hann gaf plötuna út enda er hægt að sjá í rauntíma hversu margir spila hana og auðvelt að festast yfir því. „Þetta er bara skammtímahamingja, það gefur manni ekkert til lengdar að geta séð á hverri sekúndu hversu margir eru að hlusta.“

Hann segist ekki hafa farið að taka tónlistarferilinn alvarlega fyrr en hann gaf út plötuna, bjóst alls ekki við viðtökunum sem hann fékk og var ekki að gera tónlist fyrir frægðina. „Ég tók ákvörðun um að gera það sem mig langar að gera og ef öðrum finnst það kúl þá er það geggjað. Ég fíla athygli ekki rosamikið en er samt einhvern veginn hér.“ 

Huginn er viðmælandi Atla Más Steinarssonar í öðrum þætti annarrar seríu Rabbabara. Þetta er annar þáttur af sex en í næstu þáttum fáum við meðal annars að kynnast Herra Hnetusmjöri, GDRN og Daða Frey. Þáttinn má sjá í spilaranum hér fyrir ofan. 

Tengdar fréttir

Tónlist

Erfitt að vera samkvæm sjálfri sér