Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Eitt alvarlegasta atvik sem ég hef séð“

06.11.2015 - 15:42
Spölur, sem rekur Hvalfjarðargöngin, hefur birt myndskeið af því þegar flutningabíll með trjáboli rakst upp í stálbita þannig að nokkrir bolir rákust upp í loft og hrundu síðan niður á akbrautina. Maríno Tryggvason, öryggisfulltrúi Spalar, segir þetta „eitt alvarlegasta atvik sem hann hafi séð upptöku af í Hvalfjarðargöngunum.“

Marínó sagði við fréttastofu í síðustu viku að farmurinn hefði verið of hár og að hann hafi rekist undir slá sem markar hámarkshæð farms. Á vef Spalar er haft eftir Marínó að tjónið hlaupi á milljónum. Mikil mildi þykir að enginn skyldi slasast því umferð var mikil í báðar áttir.

Þetta er í annað sinn á þessu ári sem flutningabíll keyrir á hæðarslána. Í júli birtist myndskeið af því þegar flutningabíll á suðurleið lenti af miklu afli á hæðarslánni þvert yfir akbrautum við suðurmunna ganganna, stálbita sem er í yfir 4,2 metra hæð. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV