Eitraðir sokkar

Mynd: Inga Ævarsdóttir / Facebook

Eitraðir sokkar

30.05.2016 - 15:27

Höfundar

„Táfýla hefur illt orð á sér og ef til vill þiggur stór hluti neytenda með þökkum að sokkarnir þeirra hafi fengið táfýlufyrirbyggjandi meðferð áður en notkun þeirra hefst,“ segir Stefán Gíslason í pistli sínum í Samfélaginu á Rás 1.

Síðastliðinn föstudag brá ég mér inn í ónefnda verslun í Reykjavík í þeim erindagjörðum að kaupa sokka, sem ekki er svo sem í frásögur færandi. Það er heldur ekki í frásögur færandi að ég á það til að vera frekar sérvitur þegar sokkar eru annars vegar og fer því stundum erindisleysu þá sjaldan sem sokkakaup eru á dagskrá. Eftir nokkra leit í þessari ónefndu verslun fann ég hins vegar einmitt sokka sem ég taldi henta mér einkar vel. Þetta voru nánar tiltekið nokkur sokkapör sem komið hafði verið haganlega fyrir í hentugum pappaumbúðum sem á voru letraðar ýmsar grundvallarupplýsingar um ágæti sokkanna. Á umbúðunum kom m.a. fram, í lauslegri íslenskri þýðingu, að varan hefði „fengið bakteríuhamlandi meðferð til að hindra lyktarmyndun og til að viðhalda ferskleikatilfinningu“. Þarna komu líka fyrir einkunnarorðin „Virkur ferskleiki“ eða „active freshness“ eins og það var orðað á frummálinu. Neðst á pakkanum kom svo skýring á þessum „virka ferskleika“. Umræddir sokkar innihalda sem sagt sæfiefnið dí-metýl-okta-desýl-[3-(trí-metoxý-sílýl)-propýl]-ammóníum-klóríð. Þegar þarna var komið sögu skilaði ég sokkunum aftur í hilluna og labbaði út í föstudagssíðdegið til móts við einhvern allt öðruvísi „virkan ferskleika“.

Hvað er í sokkunum þínum – (annað en tær)?

Almennt ber framleiðendum engin skylda til að upplýsa um efnainnihald á umbúðum varnings sem þeir selja, en ef vara er meðhöndluð með varnarefni, t.d. sótthreinsandi efni, þá á það að koma fram á umbúðunum. Sokkaframleiðandinn sem átti hlut að þessari föstudagssögu hefur því væntanlega þurft að upplýsa mig um dí-metýl-okta-desýl-[3-(trí-metoxý-sílýl)-propýl]-ammóníum-klóríð-innihald umræddra sokkapara, og kannski hefur hann líka talið þessar upplýsingar vera til þess fallnar að örva sölu sokkanna. Það kann líka vel að vera rétt. Táfýla hefur illt orð á sér og ef til vill þiggur stór hluti neytenda með þökkum að sokkarnir þeirra hafi fengið táfýlufyrirbyggjandi meðferð áður en notkun þeirra hefst. Lausleg leit á internetinu bendir heldur ekki til að það sé neitt ólöglegt við þessa táfýluvörn. Eftir því sem ég kemst næst er notkun efnisins ekki háð neinum sérstökum takmörkunum, hvorki austanhafs né vestan. Efnið er skráð í gagnagrunni Efnastofnunar Evrópu en ekki hefur verið tekin afstaða til þess hvort það eigi heima á svonefndum kandídatslista yfir sérlega varasöm efni sem geta valdið alvarlegum og langvarandi áhrifum á heilsu manna og umhverfi. Efnið er sem fyrr segir sæfiefni, en þar er í stuttu máli átt við hvers konar efni sem ætlað er að deyða líf.

Hættuleg efni

Í sínu hreinasta formi er efnið sem um ræðir fölgulur vökvi með vægri ammóníaklykt. Suðumarkið er talsvert lægra en suðumark vatns og efnaformúlan í sinni einföldustu mynd er C26H58ClNO3Si, sem þýðir í stuttu máli að efnið er samsett úr 26 kolefnisfrumeindum, 58 vetnisfrumeindum og smávegis af klóri, köfnunarefni, súrefni og kísil, sem segir manni svo sem ekki neitt. Efnið er notað sem rotvarnarefni í trefjar og leður, m.a. við fataframleiðslu. Samkvæmt upplýsingum úr efnaiðnaðinum, sem ég fann í einhverju horni internetsins, hentar efnið, sem þar er líka kallað PC9911, bæði fyrir trefjar úr náttúrulegum efnum og gerviefnum, binst þeim varanlega og ver þær gegn upplitun, myglu og öðrum skemmdum af völdum baktería, þörunga og sveppa, út líftíma vörunnar.

Í upplýsingum sem framleiðandi umrædds efnis hefur sent til Evrópusambandsins í samræmi við REACH-reglugerðina kemur fram að efnið hafi mikil og langvarandi eituráhrif á vatnalíf, sé mjög eitrað ef menn gleypa það eða anda því að sér, sé hættulegt og ertandi ef það kemst í snertingu við húð, mjög skaðlegt ef það berst í augu og hugsanlega krabbameinsvaldandi, auk þess sem það sé mjög eldfimt bæði í vökvaformi og í loftkenndu formi. Í norðuramerískum gagnagrunni er enn frekar hnykkt á því að skaðleg áhrif efnisins geti verið óafturkræf. Í öryggisleiðbeiningum er þess líka getið að halda beri efninu fjarri eldi og forðast reykingar í návist þess. Berist það í auga skuli augað hreinsað þegar í stað með nægu vatni og læknisaðstoðar leitað. Bera skuli viðeigandi hanska og hlífðarföt og búnað sem skýli andliti og augum þegar efnið sé meðhöndlað – og að ílát með efninu skuli vera tryggilega lokuð.

Ætandi eiturefni á húðinni?

Sé það rétt sem sagt er að efnið bindist trefjunum sem það á að verja hlýtur það að þýða að það vinni fótunum á mér ekkert tjón eftir að það er einu sinni komið í sokkana, jafnvel þótt ég kaupi umrædda sokka og noti þá árum saman. Það er líka eins gott, fyrst efnið er hættulegt og ertandi ef það kemst í snertingu við húð. Og auðvitað hefur það sína kosti að eiga sokka sem hvorki mölur né ryð fær grandað. (Hér tek ég mér reyndar svolítið skáldaleyfi, því að í tiltækum upplýsingum um efnið er hvergi beinlínis minnst á möl og ryð). Eftir stendur þó sú spurning hvort það sé nauðsynlegt eða skynsamlegt þegar á heildina er litið að meðhöndla sokka og/eða annan fatnað með efnum á borð við dí-metýl-okta-desýl-[3-(trí-metoxý-sílýl)-propýl]-ammóníum-klóríð. Um leið vaknar sú spurning hvaða áhrif efnið hafi haft á lífríkið og heilsu fólks í framleiðslu og notkun og hvaða áhrif það muni hafa síðar á lífsleiðinni þegar það fylgir sokkunum, sem það binst svona vel, inn í eilífðina. Ef efnið gefur varanlega vörn hlýtur alla vega að teljast ólíklegt að það hverfi sporlaust fyrir fullt og allt um leið og sokkarnir ljúka hlutverki sínu sem slíkir.

Á þessari sokkasögu eru ýmsar hliðar. Ein hliðin er sú, að ef umrædd áletrun hefði ekki verið sæmilega læsileg á umbúðunum og ef ég væri ekki sérlegur áhugamaður um innihaldslýsingar, hefði ég örugglega keypt sokkana. Og kannski munu þeir sokkar sem ég kaupi á endanum innihalda einhver miklu verri efni sem framleiðandinn hefur hvorki skyldu til né áhuga á að upplýsa mig um.

Umhverfismerktir sokkar?

Neytendum sem hafa efasemdir um ágæti dí-metýl-okta-desýl-[3-(trí-metoxý-sílýl)-propýl]-ammóníum-klóríðs og annarra efna með torkennileg nöfn sem bætt er í neytendavörur til að gefa þeim einhverja ákjósanlega eiginleika, hugsanlega á kostnað heilsu og umhverfis, er vandi á höndum, því að fyrir venjulegt fólk er efnaveröldin frumskógur sem erfitt er að rata um. Næst þegar ég verð í sokkakaupahugleiðingum mun ég líklega spyrja eftir umhverfismerktum sokkum, t.d. sokkum sem merktir eru með Norræna svaninum, Umhverfismerki Evrópusambandsins eða textílmerkinu GOTS, eða G.O.T.S, sem stendur fyrir Global Organic Textile Standard. Samkvæmt kröfum Svansins er með öllu óheimilt að nota sæfiefni og/eða bakteríuhemjandi efni í textílframleiðslu, textílvörur með Umhverfismerki Evrópusambandsins mega ekki innihalda nein sæfiefni sem eru virk á notkunartíma vörunnar og GOTS útilokar líka notkun efna af þessu tagi.

Nú er eðlilegt að spurt sé hvar maður fái umhverfismerkta sokka. Þeirri spurningu get ég ekki svarað án þess að hafa kannað markaðinn betur en ég hef gert. Á þessu stigi verð ég því að láta nægja að ráðleggja þeim sem áhuga hafa á slíkum varningi að spyrjast fyrir í verslunum. Það þurfa ekki margir að spyrja til að sá kvittur berist út meðal verslunarfólks að neytendur vilji gjarnan kaupa umhverfismerkta sokka eða aðra textílvöru, m.a. til að forðast efni sem geta skaðað umhverfi og heilsu og eru, þegar allt kemur til alls, engan veginn nauðsynleg.