Einvængjuð æðarkolla hluti af fjölskyldunni

Einvængjuð æðarkolla hluti af fjölskyldunni

25.12.2018 - 20:15

Höfundar

Einvængjuð æðarkolla úr Önundarfirði, býr nú í Norðlingaholti í Reykjavík. Fóstra hennar segir engu líkara en að kollan líti á sig sem hund eða manneskju, frekar en fugl.

Æðarkollan býr í Norðlingaholti ásamt fjögurra manna fjölskyldu og hundi. Fjölskyldan tók kolluna að sér þegar hún var ungi í Önundarfirði þar sem þau eiga hús. „Það komst villiköttur í hann og sleit af honum annan vænginn og það var þá alveg augljóst mál að við gátum ekki sleppt honum út í náttúruna. Og við eigum náttúrulega heima hér í Reykjavík þannig að það var ekkert annað í stöðunni en að hann kæmi með okkur heim,“ segir Ragnheiður Ólafsdóttir. Og hún segir að fyrirkomulagið hafi gengið vel. „Bara rosalega vel, hann er bara einn af fjölskyldunni.“

Þetta er ólíkt öllu öðru sem ég hef gert en samt ótrúlega skemmtilegt. En hvernig hefur hún lagað sig að heimilinu og ykkur? Bara Furðulega vel. Skrítið hvað önd getur vanist venjulegu heimilislífi eins og hver annar. 

„Þetta er ólíkt öllu öðru sem ég hef gert en samt ótrúlega skemmtilegt,“ segir Sara Hlín Geirsdóttir.  En hvernig hefur hún lagað sig að heimilinu og ykkur? „Bara furðurlega vel,“ segir Sara Hlín. „Skrítið hvað önd getur vanist venjulegu heimilislífi eins og hver annar.“

Hefur hann hitt aðra fugla? „Já, bæði æðarkollur og stokkendur og hann syndir með þeim í smá tíma og svo kemur hann bara með okkur heim,“ segir Ragnheiður. „Það eru meiri líkur á því að hann haldi að hann sé hundur eða maður heldur en nokkurn tímann fugl,“ segir hún.

En verður fuglakjöt á boðstólum á þessu heimili um jólin? „Helmingurinn af fjölskyldunni eru grænmetisætur og hinn helmingur er ekki mikið fyrir fugla, svo ekki séns,“ segir Ragnheiður.

Fjölskyldan hefur ekki tekið ákvörðun um framtíð kollunnar. „Við bara höldum henni eins lengi og við getum,“ segir Sara Hlín. Og þú berst fyrir því ? „Já,“ segir Sara Hlín.