Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Einungis Mexíkó fjárfestir minna í heilbrigði

13.06.2016 - 14:48
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Af öllum þjóðum OECD er það einungis Mexíkó sem veitir hlutfallslega minni fjármunum en Íslendingar til heilbrigðisþjónustu sé litið til hlutfalls vergrar landsframleiðslu til fjárfestinga í fastafjármunum heilbrigðisþjónustunnar. Til fastafjármuna teljast meðal annars spítalar, heilsugæslustöðvar, rannsóknartæki og annar búnaður sem þarf til þjónustunnar.

Þetta kemur fram í skýrslu í ASÍ um þróun heilbrigðisútgjalda á Íslandi. Mikil fjárhagsleg byrði fylgir því að veikjast á Íslandi.  Dæmi eru um að meðferðir við sjúkdómum kosti allt að hálfri milljón króna. Hér á landi jukust útgjöld á mann til heilbrigðismála mjög lítið á árunum 2005 til 2009, eða aðeins um 0,4 prósent að meðaltali á ári. Á sama tíma var árleg meðalaukning í Danmörku um 3,4% og tæp 2% í Svíþjóð og Noregi. Á árunum eftir hrun drógust útgjöld á mann saman hér á landi um 0,4 prósent.

Í skýrslunni kemur jafnframt fram að útgjöld hins opinbera til heilbrigðismála sem hlutfall af landsframleiðslu hafa farið vaxandi undanfarna áratugi á öllum Norðurlöndum nema Íslandi.

Heilbrigðisútgjöld heimila hafa vaxið mun hraðar en útgjöld hins opinbera undanfarin þrjátíu ár. Á níunda áratugnum sáu heimilin fyrir 8 til 10 prósentum af heildarútgjöldum til heilbrigðismála. Um aldarmótin var hlutfallið komið upp í 16 til 17 prósent. Undanfarin þrjú ár hafa heimilin séð fyrir tæplega 19% útgjalda til heilbrigðismála.

Í skýrslu ASÍ kemur fram að útgjöld heimila séu misjöfn eftir þjónustuþætti. Þannig sáu heimilin fyrir um helmingi allra útgjalda sem þurfti til kaupa á lyfjum, nánast 60 prósentum útgjalda til hjálpartækja og tæplega 80 prósentum á fjármögnun tannlæknaþjónustu.

 

Hjálmar Friðriksson
Fréttastofa RÚV