Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Eins og púsluspil þar sem stykkin passa ekki

24.11.2016 - 08:27
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Óvíst er hvað gerist í stjórnarmyndunarviðræðum eftir að slitnaði upp úr viðræðum fimm flokka í gær. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, hefur ekki ákveðið næstu skref hjá sér og þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir stöðuna alvarlega. Þing verður að öllum líkindum kallað saman í næstu viku..

Formlegum viðræðum Vinstri grænna, Bjartrar framatíðar, Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar var slitið í gær þar sem málefnalegur ágreiningur var á milli flokkanna um hvernig ætti til dæmis að fjármagna uppbyggingu í heilbrigðismálum.

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, segist ekki hafa ákveðið næstu skef - hún ætlar að nýta tímann fram að hádegi til að fara yfir stöðu mála með sínu fólki. Staðan sé þó ekkert auðveld. „Þetta er eins og að vera leggja púsluspil með sjö stykkjum og þau passa ekkert vel saman. Og þetta verður ekkert auðveldara eftir því sem reyndar eru fleiri samsetningar.“

Katrín segir að þar sem upp úr þessum viðræðum hafi slitnað geti aðrir flokkar reynt að mynda meirihluta ef þeir telja sig geta það. Hún segir ljóst að kalla verði þingið saman í næstu viku. „Þingið verður að koma saman til að takast á við fjárlagafrumvarp - hvort sem það er komið í ríkisstjórn eða ekki. Og mér skilst að síðasti möguleikinn sé um mánaðarmót og ég held að það sé í sjálfu sér í lagi. Þingið ræður alveg við það þótt ekki sé komin starfandi meirihluti. Fólk verður þá bara að vinna öðruvísi en það er vant sem ég held að sé ekkert slæmt.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að staðan sé flókin og alvarleg. „Núna verða menn að breyta kúrs og gefa eftir. Þetta er þannig mál að menn verða að mynda starfhæfa ríkisstjórn og slá af sínum prinsippum. Setja saman stjórn sem getur starfaða saman. En ég verð að viðurkenna að ég sé ekki alveg hvernig það geti gerst á næstu dögum.“

Brynjar segir að það þurfi að kalla saman þing um mánaðarmótin til að hefja vinnu við fjárlagafrumvarpið og koma því í einhvern farveg.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV