Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Eins og lögfræðileg vísindaskáldsaga

16.08.2019 - 14:53
Mynd með færslu
Skúli Magnússon, formaður Dómarafélags Íslands. Mynd: RÚV
Það er ekkert í orkupakkanum sjálfum sem leggur skyldu á íslensk stjórnvöld um lagningu sæstrengs, sagði Skúli Magnússon, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, á fundi utanríkismálanefndar Alþingis í dag. Hann sagði að þetta hlytu allir að vera sammála um, hvort sem þeir væru lögmenn eða ekki. Skúli lýsti mögulegu skaðabótamáli vegna sæstrengs sem lögfræðilegri vísindaskáldsögu og leikhúsi fáránleikans.

Skúli sagðist skilja vel að þriðji orkupakkinn væri pólitískt álitaefni sem vefðist fyrir stjórnmálamönnum. Það væri hins vegar ekki stjórnskipulegt verkefni hvort að þriðji orkupakkinn legði á íslensk stjórnvöld skyldu um sæstreng. Skúli sagði að ekkert aðildarríki EFTA eða ESB héldi því fram að slík skylda væri fyrir hendi. „Það er enginn viðurkenndur fræðimaður, sem ég veit um, sem heldur þessu fram,“ sagði Skúli.

Arnar Þór Jónsson, kollegi Skúla í Héraðsdómi Reykjavíkur, sagði á fundi nefndarinnar fyrr í dag að Ísland gæti staðið frammi fyrir mikilli óvissu í framtíðinni vegna þriðja orkupakkans. Hann sagði að staða Íslendinga veiktist í hugsanlegum dómsmálum verði þriðji orkupakkinn innleiddur.

„Auðvitað er hægt að segja að við vitum aldrei hvað dómstólar myndu segja,“ sagði Skúli en bætti við: „Við göngum út frá því að dómarar dæmi eftir lögum. Ef við getum ekki gert það erum við í býsna miklum vandræðum.“ Hann sagðist ekki geta sagt með 100 prósent vissu að EFTA dómstóllinn myndu dæma með þessum hætti frekar en að hann gæti sagt með hundrað prósent vissu að hann yrði enn á lífi á morgun. Hins vegar væri „lagalegur realismi“ þannig að það væri samt sem áður mjög ólíklegt að Ísland yrði skyldað til að leggja eða samþykkja sæstreng. Hann sagði sönnunarkröfuna fyrir skaðabótum þess sem ekki fengi að leggja sæstreng vera mjög mikla. Hann sagðist ekki vita hvernig mönnum tækist að sýna fram á það tjón þegar ekki væri eitt snifsi fyrir hendi þegar gerðir þriðja orkupakkans voru samþykktar til að byggja slíka bótakröfu á. „Hér erum við komin í einhvers konar lögfræðilega vísindaskáldsögu sem er svo erfitt að halda áfram með að það er orðið einhvers konar leikhús fáránleikans að taka þátt í þessari umræðu.“

Leyniþjónustan atkvæðameiri en eftirlitsstofnanir

Heimildir ACER snúa ekki að orkunýtingu eða tengivirkjum heldur aðeins að ágreiningi eftirlitsaðila, sagði Skúli. Hann sagði líklegt að upp gæti komið ágreiningur sem ACER myndi taka á. Skúli sagði líklegra að ACER og ESA hefðu afskipti af sæstreng en að hér birtist evrópska samkeppniseftirlitið birtist hér. Hann sagði heimildirnar þó mjög afmarkaðar og snúast að innlendum stjórnvöldum. Skúli sagði að væntanlega hefði leyniþjónusta Bandaríkjanna haft meiri starfsemi hér heldur en eftirlitsstofnanir Evrópusambandsins.