Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

„Eins og hvirfilbylur hefði farið yfir bæinn“

09.09.2016 - 13:25
Mynd með færslu
 Mynd: Björgunarsveitin Strákar
Siglfirðingurinn Torfi Þórarinsson segist aldrei hafa upplifað annan eins veðurofsa og æddi skyndilega yfir Siglufjörð síðdegis í gær. Hann upplifði óveðrið eins og hvirfilbylur færi yfir bæinn. Fjöldi trjáa hafi rifnað upp með rótum, reiðhjól og annað fokið eftir götum og ekki stætt undandyra.

Samkvæmt mælingum Veðurstofunnar fór vindhraðinn í allt að fjörutíu metra á sekúndu á tímabili í firðinum. Björgunarsveitin Strákar á Siglufirði var kölluð út og hafði í nógu að snúast.

Torfi segir veðrið hafa skollið á upp úr klukkan tvö, en þá var hann ný kominn heim til sín eftir að hafa neyðst til að hætta vinnu vegna veðurs. „Og ég sit bara hérna við eldhúsgluggann og sé hvernig skyndilega dimmir inn fjörðinn,“ segir Torfi í samtali við fréttastofu. „Það var bara eins og það kæmi hvirfilbylur og sjórinn fór að ganga á land. Dýpkunarskip, sem er hérna úti á firði, snérist í hálfhring.“

Útidyrahurðin nötraði

Við eldhúsgluggann horfði Torfi á hvernig allt lauslegt fór af stað í bænum í kjölfarið. „Reiðhjól, ruslafötur, bara nefndu það, kom fjúkandi eftir götunum. Þetta stóð yfir í svona tvo tíma. Ég ætlaði að fara út og taka myndir af þessu, en það var bara ekki séns. Útidyrahurðin nötraði hjá mér,“ segir Torfi.

Torfi segir að það hafi verið skelfilegt um að litast í bænum í gærkvöldi og í morgun eftir að veðrinu slotaði. „Það er bara eins og hvirfilbylur hafi farið yfir bæinn. Við fjarlægðum sex tré hjá nágrannakonu minni, sem eyðilögðust í óveðrinu, annað hvort skemmdust eða rifnuðu upp með rótum, og svo tókum við eitt tré hjá mér,“ segir Torfi. „Það fauk trampólín á bíl sem skemmdist, en þaðan fauk trampólínið á ljósastaur sem það felldi og splundraðist loks á húsvegg.“

Man ekki eftir öðru eins

Torfi kveðst aldrei hafa upplifað annan eins veðurofsa. „Ég hef bara aldrei séð annað eins. Veðurofsinn var svo mikill og þetta var bara svo skrítið,“ segir Torfi. „Að sjá reiðhjól koma á fullu eftir götunni og sólstóla þar á eftir, þetta var bara eins og í bíómynd.“

Hann segir óveðrið hafa komið öllum að óvörum í bænum. „Ég held að það hafi ekkert verið spáð neinu svona aftakaveðri, en það er bara eins og þetta hafi blossað upp á milli fjallanna einhvern veginn, magnist svona upp, en þetta voru bara hreinlega hvirfilbyljir,“ segir Torfi. 

Ægir Þór Eysteinsson
Fréttastofa RÚV