Eins og dæmigert Kötlugos

24.05.2011 - 14:23
Mynd með færslu
 Mynd:
Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, sagði á upplýsingafundi í stjórnstöð almannavarna í dag að gosið í Grímsvötnum væri af sömu stærðargráðu og dæmigert Kötlugos. Því mætti segja að við hefðum nú fengið Kötlugosið sem lengi hafi verið búist við, nema úr Grímsvötnum.

Þetta er óvenjustórt Grímsvatnagos, strax fyrsta sólarhringinn var öskufallið orðið jafnmikið og í öllu eldgosinu í Eyjafjallajökli.
Magnús Tumi sagði kostinn við Grímsvatnagosið vera hve langt eldstöðin sé frá byggð. Um 60 kílómetrar skilja gosstöðina og næsta byggða ból að. Kílómetrarnir voru hinsvegar aðeins sex sem skildu að gosstöðina í Eyjafjallajökli og næsta bæ. Í sömu fjarlægð frá Grímsvatnagosi taldi Magnús að væri um hálfs meters þykkt öskulag og hafði á orði að þar væri ekki gaman að búa. Eldstöðin hefði hins vegar verið svo almennileg að hlífa húsi Jöklarannsóknafélagsins sem stendur í sjö kílómetra fjarlægð frá eldstöðinni á Vatnajökli.
Magnús sagði að kannski væri hægt að líta svo á  gosinu væri lokið, mökkurinn hefði lækkað svo mikið að gosefnin dreifðust nú aðeins um jökulinn í kringum eldstöðina sjálfa en ekki út um allar jarðir. Hann taldi ólíklegt að gosið breyttist í hraungos þar sem vatn rynni stöðugt inn í gíginn. Það væri ekki nema vatnsrásin stíflaðist og gígurinn minnkaði að  hraun tæki að renna. Það yrði þá minniháttar gos.
Magnús spáði því að reglulega gysi í Grímsvötnum næstu fimmtíu árin eða svo, en árið 2060 tæki eldstöðin sér hvíld. Þá væri hann líklegast hættur að fylgjast með eldgosum!

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi