Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Eins og byggja þyrfti nýjan Kópavog og Akranes

08.02.2018 - 12:32
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Uppsöfnuð íbúðaþörf næstu tvö ár samsvarar því að byggja þyrfti næst stærsta sveitarfélag landsins, sagði þingmaður Pírata í umræðum um húsnæðismál á Alþingi í dag. Þingmenn voru sammála um að húsnæðismálin væru komin í óefni og undruðust hversu mörg ráðuneyti þau heyra undir.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, var upphafsmaður umræðu um nýja skýrslu Íbúðalánasjóðs um íbúðaþörf. Þingmenn voru sammála um að húsnæðismál væru komin í ógöngur og aðgerða þörf.

„Í skýrslu Íbúðalánasjóðs kemur fram að það vanti 17.000 íbúðir fyrir lok ársins 2019. Það eru íbúðir fyrir 42 þúsund manns og væri annað stærsta bæjarfélag á Íslandi. Það þarf sem sagt að byggja nýjan Kópavog og Akranes til að ná í uppsafnaða þörf,“ sagði Björn Leví og lýsti fordæmum fyrir því að mikið væri byggt á skömmum tíma. Björn sagði að landsmenn yrðu í sömu eða verri stöðu eftir tvö ár ef ekki yrði brugðist við. „Það er mikilvægt að bregðast við.“

Mynd með færslu
 Mynd: Alþingi

Engar skammtímalausnir

Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra, sagði að ríki og sveitarfélög yrðu að vinna saman að lausn vandans. Hann sagði mikilvægt að bregðast við en að það væru engar skammtímalausnir í boði. „Við verðum að horfa til langs tíma.“ Ásmundur Einar lagði áherslu á húsnæðisáætlanir sveitarfélaga til að tryggja lóðaframboð.

„Það er mikilvægt að fjölgun íbúða næstu árin sé bæði mikil og stöðug, enda viljum við ekki að sveiflur síðustu tveggja áratuga á húsnæðismarkaði endurtaki sig,“ sagði Ásmundur Einar.

Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að víða á landsbyggðinni stæði skortur á húsnæði uppbyggingu fjölbreyttara atvinnulífs fyrir þrifum. Hann vísaði til þess að undanfarinn áratug hefði nær ekkert húsnæði verið byggt á mörgum stöðum.

Bryndís Haraldsdóttir, stjórnarformaður Strætó bs.
Bryndís Haraldsdóttir Mynd: RÚV/Kastljós

Efast um að 15 þúsund vanti þak yfir höfuðið

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, furðaði sig á því, eins og fleiri þingmenn, hversu mörg ráðuneyti hefðu áhrif á uppbyggingu íbúðarhúsnæðis, í stað þess að eitt ráðuneyti færi með málaflokkinn.

Hún kallaði eftir frekari greiningu á húsnæðismarkaðnum. „Ég geri ekki lítið úr þeirri miklu þörf sem er á fjölda íbúða hér á höfuðborgarsvæðinu og landinu öllu, við búum við ákveðinn skort. Ég ætla samt að leyfa mér efast um að það séu fimmtán þúsund manns þarna úti sem eiga ekki þak yfir höfuðið, búa í foreldrahúsum og hafa fjármagn eða eru tilbúin til að kaupa sér íbúð.“

Dálítið eins og að skrúbba dekkin á Titanic

„Ég held að því miður séum við dálítið eins og.. það má lýsa því þannig að við værum á dekkinu á Titanic, enn að skrúbba það, og ísjakinn nokkra metra frá okkur,“ sagði Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins. „Vandamálið sem við stöndum frammi fyrir er framboðsvandamál,“ sagði Bergþór. Hann sagði það vera ótrúlega stöðu að Samtök iðnaðarins sæju sig knúin til að skora á Reykjavíkurborg að sýna fram á hvaða lóðir væru í boði.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist - RÚV

Íbúaþróun stýrt af landsbyggðum til höfuðborgarsvæðisins

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði að víða á landsbyggðinni standi húsnæðisskortur atvinnuuppbyggingu og samfélagi fyrir þrifum. Erfitt væri að fá fjármálastofnanir til að fjármagna uppbyggingu úti á landi. „Ég hef miklar áhyggjur af neikvæðri byggðaþróun af landsbyggðinni,“ sagði Lilja Rafney. „Ef ekki er framboð af góðu og öruggu húsnæði fyrir til dæmis ungt fólk, tekjulága og aldraða þá er verið að stýra íbúaþróun, með beinum og óbeinum hætti, frá landsbyggðunum til höfuðborgarsvæðisins, þangað sem fjármálastofnanir beina fjármagninu til uppbyggingar, með tilheyrandi þenslu hér á höfuðborgarsvæðinu og byggðaröskun á landsbyggðunum.“

Skýrslan viðvörunarbjalla

Ólafur Ísleifsson, þingmaður Flokks fólksins, sagði húsnæðismálin hafa ratað í ógöngur. Framboðshliðin er ófullnægjandi og brýnt að bætt verði úr, bæði lóðaframboði og reglugerðum. Ólafur sagði að skýrslan væri viðvörunarbjalla um það í hversu miklar ógöngur húsnæðismálin væru komin.

Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, sagði skýrsluna ekki gera annað en að staðfesta það sem þingmenn vissu fyrir, að húsnæðismálin væru komin í ógöngur. „Við erum komin á þann stað núna að við þurfum að fara að gera eitthvað.“ Hún sagði að síðasta ríkisstjórn hefði sett fram húsnæðissáttmála í samvinnu við sveitarfélög. Hún sagði spurninguna ekki eiga að vera hvað stjórnvöld ættu að gera heldur hvað þau væru að gera.