Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Eins og að vera í svifflugvél“ þegar vélin hallaðist

07.02.2020 - 19:37
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Farþegi í flugvélinni sem lenti í vandræðum í lendingu á Keflavíkurflugvelli í dag segir að það hafi verið eins og að vera í svifflugvél þegar þetta gerðist. Flugstjórinn hafi hægt á flugvélinni og hún síðan tekið að hallast sífellt meira.

„Hann lendir bara vel, svo fimm sekúndum seinna kemur högg eða einhvers konar sprenging eða högg, ekki mikil. Allir heyra það,“ sagði Árni Einarsson í viðtali við Þórhildi Þorkelsdóttur fréttamann í kvöldfréttum sjónvarps. „Síðan byrjar hann að hægja á vélinni. Þetta er eins og að vera í svifflugvél. Hann hægir á og allt í einu fer flugvélin að halla og halla.“

„Þeir sem voru þeim megin sáu eldglæringar og flugfreyjan kom hlaupandi til að athuga hvort að það væri nokkur eldur undir hreyflinum. Það rak enginn upp öskur. Það voru allir rólegir,“ sagði Árni.

Ómar Ellertsson sagðist hafa áttað sig á alvörunni eftir að úr flugvélinni var komið. „Þegar maður kom út rútu í hugsaði maður: Vá, hvað ég var heppinn. Þetta hefði getað farið verr.“

Mynd: Hilmar Bragi Bárðarson / Víkurfréttir

Linda Gunnarsdóttir, yfirflugstjóri Icelandair, segir atvikið í dag mjög sjaldgæft. „Þetta er vél sem er að koma frá Berlín og á algjörlega eðlilegt aðflug og eðlilega lendingu. Skömmu eftir að vélin er lent gefur annar lendingarbúnaðurinn sig sem verður til þess að vélin leggst á hliðina.“ Viðbrögð við svona aðstæðum eru æfð reglulega þótt sjaldnast reyni á þá þekkingu, sem gerðist þó í dag. 

„Við tókum á móti farþegum í flugstöðinni og buðum þeim áfallahjálp sem reyndar afar fáir þáðu og tengifarþegar vildu bara halda áfram för sinni, segir Linda. „Sama átti við um áhöfnina. Við tókum hana til hliðar, veittum þeim áfallahjálp og hugsuðum vel um þau.“

Í tilkynningu frá Icelandair segir að allir þeir farþegar sem hafi átt tengiflug til Norður-Ameríku hafi haldið för sinni áfram í kvöld. Aðrir hafi komist fljótt á áfangastað sinn á Íslandi. Orsök atviksins liggi ekki fyrir en rannsóknin er í höndum Rannsóknarnefndar samgönguslysa.

Haft er eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair, að það skipti mestu máli að engin meiðsli hafi orðið á fólki og að vel hafi gengið að koma öllum farþegum frá borði. „Áhafnarmeðlimir og annað starfsfólk okkar brást hárrétt við og stóð sig vel við þessar aðstæður. Ég vil þakka Rauða krossinum, Isavia og öðrum viðbragðsaðilum fyrir þeirra mikilvæga framlag. Öryggi og velferð farþega okkar er ávallt í fyrirrúmi og eftirfylgni við farþega sem voru um borð í vélinni hefur þegar verið skipulögð,“ er haft eftir honum í tilkynningunni. 

Fréttin hefur verið uppfærð.