Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Eins og að selja hundakjöt í Bandaríkjunum

11.10.2015 - 14:28
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Formaður samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, segir að það sé eins og að ætla sér að selja kínverskt hundakjöt í Bandaríkjunum og að finna nýja markaði fyrir loðnu og makríl. Ekkert komi í stað Rússlands. Sjávarútvegsfyrirtæki binda vonir við að viðskiptabanni Rússlands gegn Íslandi ljúki á næsta ári.

Sjávarútvegsfyrirtæki fengu heimild til að færa meiri makrílkvóta en áður á milli ára og geyma hluta hans til næsta árs. Forsvarsmenn þeirra vonast til þess að á næsta ári verði Rússlandsmarkaður aftur orðinn opinn fyrir Íslendingum, því ekkert komi í hans stað.

„Já, menn horfa til þess að í lok janúar að þá á að ákveða hvort að þær þvinganir sem við tökum þátt í með Evrópusambandinu og Bandaríkjunum verði framlengdar. Þá þurfa stjórnvöld hér að taka ákvörðun um hvað gera skal, þannig að þá horfir maður til þess að það verði í það minnsta lögð töluverð vinna í að skoða afleiðingarnar og áhrifin af því sem við erum að gera. Og að sú ákvörðun verði tekin eftir töluverða umhugsun og samráðs við þá aðila sem hafa hagsmuna að gæta,“ segir Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Eins og kínverskt hundakjöt í Bandaríkjunum
Kolbeinn segir að það sé ekki sjálfsagt að finna nýja markaði, byggja þurfi upp viðskiptasambönd og kynna vöruna.

„Það er hægara sagt en gert að finna nýja markaði fyrir vöru sem ekki fyrirfinnst á á þeim mörkuðum. Ég held að það myndi ekki ganga að selja hundakjöt í Bandaríkjunum ef sá markaður lokaðist í Kína, það tæki allavega einhvern tíma að búa þann markað til og við erum svolítið á þeim stað,“ segir Kolbeinn.