Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Eins og að Legolas og Aragorn væru að rappa“

16.11.2017 - 21:45
Rappsenan á Íslandi gerir út á íslenska tungu á sama tíma og sótt er að íslenskunni úr öllum áttum. Rappari segir íslensku ekki síður eiga upp á pallborðið erlendis.

Við þekkjum öll umræðuna um versnandi íslenskukunnáttu yngri kynslóðanna. Kvikmyndir, tónlist og allt tæknimál, til dæmis í snjallsímunum, er iðulega á ensku og því hætt við að íslenskan verði undir. En það er ein tegund tónlistar sem gerir út á íslenskuna og þar sem tónlistarmennirnir leika sér að tungumálinu. Það er rappið. 

Þuríður Blær Jóhannsdóttir úr Reykjavíkurdætrum segir þetta ákveðna þrjósku. „Við erum nú þegar að taka svo mikið frá Bandaríkjunum og Evrópu þannig að ef að við færum að taka tungumálið líka þá værum við alveg búin að missa tökin.“

„Í rappi þarftu að hafa vald á tungumálinu og það lá beinast við að rappa á íslensku,“ segir Kolfinna Nikulásdóttir, sem einnig er í Reykjavíkurdætrum. Þær segja tónlist Reykjavíkurdætra ekki síður vinsæla meðal erlendra áheyrenda. „Okkar aðdáendahópur erlendis er miklu stærri en hér heima. Ég held að við séum líka vinsælar út af því að hjá okkur er rappið - textinn - eins og bara eitt hljóðfærið,“ segir Kolfinna.

„Og það að íslenskan sé svona hörð eins og hún er, og svona forn, þetta er eins og að Legolas og Aragorn væru að rappa fyrir fólkið úti,“ segir Blær.

Leika sér að tungumálinu

„Íslenskir rapparar nýta sér íslenskuna mjög mikið og með mjög skapandi hætti og nýta sér öll þau tilbrigði sem hún býður upp á og skapa nýja hluti og leika sér að henni,“ segir Iris Edda Nowenstein, doktorsnemi  í málvísindum. 

Hún tekur sem dæmi lagið Ég vil það, með Jóa Pé og Chase. „Það er mjög skemmtileg aðferð sem er farin þar sem er að lengja samhljóð sem við búumst ekki við að séu löng. Það sem hann gerði hann Jói Pé var að alhæfa þetta og fara með þetta lengra, í hljóð eins og V, eins og livva, sem er yfirleitt aldrei langt í íslensku en getur verið langt í sumum tungumálum.“

„Það má kannski segja að þarna sé kominn í rauninni ný bragfræði sem gerir það að verkum að það er aftur skemmtilegt og ákveðin glíma að yrkja á íslensku. Því að þetta er ekkert annað en skáldskapur,“ segir Anna Sigríður Þráinsdóttir, málfarsráðunautur.

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV