Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Eins og að fá listamannalaun í ár

Mynd:  / 

Eins og að fá listamannalaun í ár

25.11.2017 - 13:55

Höfundar

Ása Helga Hjörleifsdóttir kvikmyndagerðarkona hlaut á dögunum Gullna bengaltígurinn fyrir bestu leikstjórn á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Kolkata á Indlandi. Það eru ein hæstu peningaverðlaun sem veitt eru í hátíðabransanum, og samsvara 3,3 milljónum íslenskra króna.

„Þetta er eins og að fá listamannalaun í ár, sem er auðvitað stórkostlegt þar sem það er ekki boðið upp á þau fyrir kvikmyndagerðarfólk,“ segir Ása Helga. Verðlaunin hlaut hún fyrir kvikmyndina Svaninn sem er byggð á margverðlaunaðri skáldsögu Guðbergs Bergssonar frá 1991. Bókin hefur notið gríðarlegra vinsælda allar götur síðan, verið þýdd á fjölda tungumála, og var til að mynda gefin út í Taívan í fyrra. Það ætti því ekki að koma á óvart að sagan tali til áhorfenda á alþjóðavettvangi. Svanurinn var frumsýndur á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto í september og hefur síðan verið á ferðinni milli kvikmyndahátíða.

Mynd með færslu
 Mynd:  - Stikla
Gríma Valsdóttir í hlutverki sínu í Svaninum.

Persónuleg fyrir hvern og einn

„Skáldsagan hefur verið þýdd á ótal tungumál og sagan náð virkilega til margra, en bíómyndin er jú annað fyrirbæri. Það sem mér hefur fundist merkilegast og skemmtilegast að uppgötva þegar ég tala við áhorfendur hér og þar í heiminum er hversu mikið myndin virðast draga fram atriði í undirmeðvitund fólks,“ segir Ása Helga. „Fólk hefur komið til mín eftir á og sagt mér frá einhverju úr æsku sem það var löngu búið að gleyma. Eða hvernig eitthvað í myndinni vakti tilfinningar sem viðkomandi vissi ekki að hann eða hún byggi yfir. Mér finnst það svo mikill galdur, hversu persónuleg og einstök myndin virðist vera fyrir hvern og einn.“

Mynd með færslu
 Mynd:  - Stikla
Þorvaldur Davíð Kristjánsson í hlutverki sínu í Svaninum

Bókin er hjartað í verkinu

„Fyrir mér er bókin svona eins og hjartað sem slær í þessum nýja organisma sem myndin er. Ég hef skrifað drög sem voru mjög nálægt bókinni, en líka drög sem voru mjög fjarlæg bókinni,“ segir hún. Hún segir að sér hafi ekki liðið vel þegar hún fór of langt frá upprunaverkinu en á endanum hafi hún fundið gott jafnvægi. „Það var algjörlega magnað að sjá hvernig senurnar lifnuðu við á settinu, og þessi fæðing spannar svo ótrúlega langt tímabil. Í klippinu og hljóðvinnslunni gerast ekki síður magnaðir hlutir sem gera myndina síðan að því sem hún er,“ segir hún.

Notast við fuglahljóð

Myndin er að megninu til sögð frá sjónarhorni 9 ára stúlku. „Hún er naive en djúpvitur í senn. Sökum aldurs getur hún ekki skilið sumt af því sem á sér stað í kringum hana, en hún skynjar allt og meira en það. Og þar kemur hljóðmyndin sterkt inn,“ segir Ása Helga. „Ég man ekki hver það var sem sagði að hljóðið væri leiðin að undirmeðvitundinni, en með það í huga ræddum við, ég og Tiina Andreas hljóðhönnuður myndarinnar, hverja senu út af fyrir sig með tilliti til sálarástands stúlkunnar,“ segir Ása Helga. „Skynjun okkar breytist jú eftir því hvernig okkur líður. Við unnum til að mynda mjög mikið með náttúru- og fuglahljóð, og eyddum miklum tíma í að pæla í hvaða fuglar vekja hvaða tilfinningu, eða öllu heldur hvernig hægt er að búa til tilfinningar með samsetningu ólíkara hljóða úr náttúrunni, sem og úr „manngerðum“ hljóðum.“

Mynd með færslu
 Mynd: Ugla Hauksdóttir - Einkasafn
Ása Helga Hjörleifsdóttir

Ást og óbilandi sköpunarkraftur

Aðspurð hvort erfitt hafi verið að leggja lokahönd á verk af þessari stærðargráðu, svarar Ása Helga játandi: „Það hafa verið ótal augnablik, já, í eftirvinnslunni, þar sem ég vildi óska þess að ég hefði náð meira af hinu eða þessu í tökunum“. Hún segir að tökuplanið hafi verið stíft og alls kyns hlutir hafi getað haft þau áhrif að tökur gengju ekki samkvæmt áætlun.

Ása Helga lærði kvikmyndagerð við Columbia-háskóla í New York. „Einn klippikennarinn minn í skólanum sagði að maður ætti að skrifa allar slíkar frústrasjónir á blað, lesa þær upp fyrir einhvern sem maður treystir og henda svo blaðinu. Halda svo áfram að klippa með virðingu fyrir því sem maður hefur, í stað þess að vera í stöðugum pirringi yfir hinu. Þetta er bara eins og í lífinu. Ég var líka svo heppin að fá að vinna með Elísabetu Rónaldsdóttur í seinni helmingi klippiferlisins, en hún tæklaði efnið einmitt svona: með ást og óbilandi sköpunarkrafti.“

Lífsnauðsynlegt að hvíla sig

„Það er eitthvað við allt þetta ferli, að vinna og klára mynd og fylgja henni svo eftir um heiminn, sem er jafn inspírerandi og það er líkamlega og andlega erfitt. Þetta er svo mikill rússíbani og maður er stundum svo hátt uppi, en ég held að það sé lífsnauðsynlegt að hvíla sig og anda eftir svona tarnir,“ segir Ása Helga.

Til stendur að frumsýna myndina á Íslandi í byrjun janúar. Í aðalhlutverkum eru Gríma Valsdóttir, Þorvaldur Davíð Kristjánsson og Þuríður Blær Jóhannsdóttir.