Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Einokun í áfengissölu dragi úr skaðsemi

17.02.2016 - 23:08
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Einokun hins opinbera í smásölu áfengis er góð leið til að draga úr skaðsemi áfengis. Þetta er mat forseta alþjóðahreyfingar IOGT. Hún segir að áfengisframleiðendur beiti miklum þrýstingi til að selja áfengi sem víðast.

Mikil umræða hefur átt sér stað um sölu léttvíns og bjórs í matvöruverslunum hér á landi. Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur lagt fram frumvarp á Alþingi um að áfengissala verði gefin frjáls og að leyft verði að selja vín í matvöruverslunum. Kristina Sperkova forseti alþjóðahreyfingar bindindissamtakanna IOGT er stödd hér á landi.  Hún flutti erindi á fundi um alþjóðastefnu í vímuvörnum á Grand hóteli í morgun. Hún telur að  það sé slæm hugmynd að selja áfengi í matvöruverslunum.

„Vegna þess að það þarf að stýra aðgengi að áfengi. Skaðsemin er svo mikil. 3,3 milljónir manna deyja á hverju ári vegna skaðsemi áfengis. Besta leiðin til að stýra áfengissölu er að takmarka aðgengi. Og einokun er góð leið til að stýra aðgenginu. Ef áfengi fer inn í matvörubúðir geta allir útvegað sér áfengi hvenær sem er,“ segir Sperkova.

En ætti fólk ekki að eiga rétt á því að velja það sjálft hvort það kaupir áfengi?

„Jú og öllum er frjálst að velja það í einokunarverslunum. Í ríkisreknum vínbúðum vitum við hins vegar að hagnaðurinn gengur ekki fyrir mannréttindum. Með einokunarverslun setjum við lýðheilsu í fyrsta sæti, fólk getur valið og fær jafnvel góð ráð í búðunum, en starfsfólkið fer ekki yfir ákveðin takmörk.“

Sperkova segir að áfengisframleiðendur beiti miklum þrýstingi til þess að fá áfengi selt víðar, meðal annars í gegnum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina.

„Já þeir gera það tvímælalaust. Aðgengistakmörkun er ein þeirra ráðstafana sem best hefur gefist til þess að draga úr áfengisneyslu og skaðsemi tengdri áfengi, og við vitum að áfengisframleiðendur berjast hatrammlega gegn slíku. Þeir berjast gegn því, en fyrir markaðssetningu á áfengi.“